ECHA, stofnun á vegum Evrópusambandsins, hefur haft til skoðunar frá árinu 2019 mögulegt bann við notkun núverandi fylliefna á gervigrasvöllum frá og með árinu 2028 vegna mögulegra umhverfisáhrifa. Ákvörðun á að liggja fyrir árið 2022. Knattspyrnusamböndin á Norðurlöndunum hafa tekið höndum saman vegna málsins enda fjölmargir gervigrasvellir í löndunum. Á Íslandi eru 35 gervigrasvellir í fullri stærð og 163 minni gervigrasvellir. „Menn geta alveg haft skoðanir á grasi og gervigrasi en við vitum hvað gervigras hefur gert fyrir þróun á fótboltanum hér,“ segir Ingi Sigurðsson, formaður mannvirkjanefndar KSÍ, sem kom fyrir stjórn KSÍ og kynnti þetta mögulega bann á síðasta fundi sambandsins.

Ingi segir að málið eigi sér töluverðan aðdraganda og stofnunin beini ekki spjótum sínum að fótboltanum heldur míkróplasti almennt. „Þetta verkefni ECHA er ekkert sérstaklega tengt knattspyrnu, heldur um míkróplast almennt og þar koma þessi fylliefni til sögunar.“

Ingi veit ekki til þess að einhverjir séu að finna upp umhverfisvænna fylliefni þó að hann voni að það komi fyrr en síðar, enda sé það vilji bæði hans og KSÍ að vera sem umhverfisvænast. „Það er búið að reyna önnur fylliefni og því miður eru engin önnur sem uppfylla þau gæði sem þurfa að vera. Þess vegna erum við, knattspyrnusamböndin á Norðurlöndum, að benda á hinn kostinn, sem er að gefa einhvern aðlögunartíma. Svíarnir hafa verið mjög duglegir í því að útbúa umhverfi vallanna sinna þannig að fylliefnin fari sem minnst út af vellinum.

Ingi Sigurðsson (lengst til hægri í aftari röð)

Þannig að þau haldist innan vallarins, fari ekki út í fötum og skóm iðkenda – eins og mörg heimili á landinu kannast við og þaðan inn í þvottavélina. Þetta vill ESB losna við. Mig minnir að það sé í Kalmar sem búið er að útbúa völl þannig það eru skorður utan við hann þannig að möguleikinn er minnkaður að míkróplastið yfirgefi völlinn og fari út í umhverfið. Ef ESB sér ekki ljósið þá er vitað hvað mun gerast, ef ekkert annað fylliefni er komið og þá erum við í slæmri stöðu,“ segir Ingi.

Í bréfi sem knattspyrnusambönd Norðurlanda sendu ECHA sameiginlega var lögð áhersla á þá stöðu sem er uppi á Norðurlöndum með tilkomu gervigrasvalla og hvaða afleiðingar bann á slíkum völlum myndi hafa á knattspyrnuiðkun á Norðurlöndum. Ingi segir að fyrst núna sé kominn tímarammi og menn þurfi að taka höndum saman, sé aldrei að vita nema nýtt fylliefni komi til.

„Það er spurning hvað gerist þegar menn þurfa að tala enn betur saman því nú er kominn einhver tímapunktur. Árið 2022 verður þessi ákvörðun tekin og við vitum núna hvað við höfum langan tíma

Þetta er hápólítískt mál og það þarf að upplýsa marga en vonandi gera allir sér grein fyrir hversu miklar afleiðingar þetta getur haft hér á landi.

Það er byrjað að telja niður og allir þurfa að fara upp á tærnar þannig að það verði ekki neitt bann.“