Það verður sannkallaður stórleikur síðdegis í dag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en þá leiða erkifjendurnir, Liverpool og Manchester United, saman hesta sína á Anfield í toppslag deildarinnar.

Fyrir leik liðanna trónir Manchester United á toppi deildarinnar með þriggja stiga forskot á Liverpool sem er ríkjandi meistari. Á þessum tímapunkti í deildinni í fyrra munaði munaði 30 stigum á liðunum.

Í kjölfarið gerði Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, kjarakaup þegar hann nældi í portúgalska sóknartengiliðinn Bruno Fernandes sem hefur skoraði 19 mörk og lagt upp 14 mörk í þeim 31 deildarleik sem hann hefur spilað fyrir liðið.

Raunar gaf byrjun yfirstandandi leiktíðar stuðningsmönnum Manchester United ekki von í brjóst um að bjartari tímar væru fram undan með blóm í haga en í október var Solskjær undir mikilli pressu eftir verstu byrjun liðsins frá því að David Moyes var við stjórnvölinn hjá liðinu.

Bruno Fernandes hefur reynst Manchester United gulls ígildi.

Síðan þá hefur Manchester United hins vegar haft betur í níu af síðustu ellefu deildarleikjum sínum á sama tíma og Liverpool-vélin hefur hikstað í kringum jólin og á nýju ári. Solskjær hefur ekki enn tekist að hafa betur gegn Liverpool í stjóratíð sinni en liðið hefur líklega aldrei farið með jafn mikið sjálfstraust inn í slag liðanna en þegar þau ganga til leiks í dag.

Manchester United mun að öllum líkindum geta stillt upp sínu sterkasta liði í þessum leik en stuðningsmenn Liverpool liggja á bæn og senda Joël Matip hlýja strauma í von um að hann verði klár í slaginn í þessum mikilvæga leik. Fjarvera sterkustu hesta Liverpool í hjarta varnarinnar hefur smitað spilamennsku alls liðsins sem hefur ekki verið jafn orkumikill og áræðinn og síðustu misserin í undanförnum leikjum liðsins.

Fréttablaðið fékk Hallgrím Indriðason, stuðningsmann Liverpool, og Halldór Marteinsson, sem heldur með Manchester United, til þess að spá í spilin fyrir komandi leik. Þá voru þeir jafnframt beðnir um að rifja upp eftirminnilega rimmu liðanna.

Hallgrímur Indriðason, Liverpool: „Mér líst mjög vel á leikinn í dag, enda ekki ástæða til annars miðað við hvernig leikirnir á móti Manchester United hafa gengið undanfarið. Það er þó alveg ljóst að frammistaða minna manna þarf að batna frá síðustu leikjum.

Þríeykið frammi hefur ekki verið sérstaklega beitt í síðustu leikjum og þeir þurfa að finna taktinn ef þessi leikur á að vinnast. Þeir hafa reyndar oft staðið sig þegar mest á reynir þannig að ég hef trú á að við sjáum Sadio Mané, Mo Salah og Roberto Firmino í essinu sínu í leiknum.

Stuðningsmenn Liverpool vonast til þess að Joël Matip verði leikfær í dag.

Varnarlínan hefur staðið sig merkilega vel miðað við öll þau meiðsl sem hafa verið í gangi þar en ég hef dálitlar áhyggjur af henni núna, nema þá að Joël Matip verði búinn að jafna sig af meiðslunum. Án hans þarf að hafa með Fabinho annaðhvort Rhys Williams eða Nathaniel Phillips, sem eru báðir ungir, reynslulitlir og frekar hægir. Eða þá að nota þar Jordan Henderson sem er ekki vanur miðvörður og nýtist betur á miðjunni.

Ef Matip verður með er ég handviss um að við vinnum leikinn. Ef ekki gætum við lekið inn mörkum og þá verður þríeykið bara að skora meira til að við vinnum. Þeir eiga alveg að geta það.

Það hafa verið nokkrir eftirminnilegir leikir gegn Manchester United. Fyrir mig persónulega er það 3-1 sigurinn á Anfield 2011, af því ég var þá á vellinum. Dirk Kuyt skoraði þrennu en allir söngvar stuðningsmannanna voru um hinn nýkomna Luis Suárez sem var stórkostlegur í þessum leik.

Svo verður líka að minnast á 4-1 sigurinn á Old Trafford árið 2009, þar sem Fernando Torres tók Nemanja Vidic í nefið og hinn ógleymanlegi Andrea Dossena innsiglaði sigurinn. Við eigum eftir að sjá eitthvað álíka skemmtilegt að þessu sinni.“

Dirk Kuyt, Steven Gerrard og Fernando Torres fagna hér marki Liverpool á móti Manchester United árið 2010.

Halldór Marteinsson, Manchester United: „Ég er mjög spenntur fyrir þessum leik, langt síðan það hefur verið svona mikið undir í leik þessara liða. Jafnvel þótt þetta sé alls ekki einhver beinn úrslitaleikur um neitt þá mun þessi leikur segja helling um framhaldið. Mínir menn hafa verið á miklu og góðu skriði, byggt upp frábæran karakter og eru verðskuldað á toppi deildarinnar. Nú fara prófin að koma sem skera úr um það hvort liðið geti haldið sér í baráttunni um toppsætið eða ekki.

Liverpool hefur fengið þægilegra leikjaálag síðustu vikur en mörg önnur lið. Enginn deildarbikar um jólin, lengra á milli leikja en hjá mörgum öðrum liðum, fengu léttan æfingaleik í enska bikarnum og enginn aukaleikur í deild. En það eru vissulega aðeins meiri meiðslavandræði í gangi hjá þeim. Útivöllurinn hefur verið sterkur hjá Manchester United, heimavöllurinn mjög sterkur hjá Liverpool. Búið að stilla upp fyrir hörku baráttu.

Það er mögulega of augljóst að segja að lykillinn að sigri Manchester United í þessum leik verði Bruno Fernandes og Paul Pogba. Það er þó augljóslega mikill munur á United eftir því hvernig þeir koma stemmdir inn í leiki. En mesti lykillinn verður samt líklega hvernig Ole Gunnar Solskjær teiknar upp leikplanið og hvernig hann bregst við leikframvindu í leiknum sjálfum. Hann hefur oft náð því rétt, sérstaklega í stóru leikjunum, en líka stundum átt lélegar stjóraframmistöður hvað þetta varðar. Að hafa hann á tánum skiptir miklu.

Ein eftirminnilegasta viðureign þessara liða í mínum huga var á Anfield 3. mars 2007. Paul Scholes fékk ósanngjarnt rautt spjald fyrir að veifa í áttina að Xabi Alonso, Jamie Carragher komst upp með líkamsárás á Wayne Rooney án þess að fá rautt en karma beit hann í rassinn því inn á fyrir Rooney kom John O‘Shea. O‘Shea skoraði svo sætt sigurmark í uppbótartíma fyrir framan Kop stúkuna, fagnaði eins og óður maður og Manchester United endaði tímabilið sem Englandsmeistari.“

John O'Shea fagna hér sigurmarki Manchester United í leik sínum við Liverpool árið 2007.