Christian Eriksen, leikmaður danska karlalandsliðsins í fótbolta, hefur rætt við fjölmiðla í fyrsta skipti eftir að hann fór í hjartastopp í leik Danmerkur gegn Finnlandi í riðlakeppni Evrópumótsins á Parken í Kaupmannahöfn á laugardaginn.

Eriksen var fluttur á sjúkrahús eftir að hafa verið endurlífgaður á vellinum og er líðan hans í dag stöðug. Eriksen verður undir eftirliti á sjúkrahúsinu næstu daga.

Eriksen ræddi við ítalska blaðið Gazzetta dello Sport.

„Ég mun ekki gefast upp. Takk fyrir stuðningin öll,“ sagði Eriksen í spjalli við Gazzetta dello Sport.

„Ég er allur að koma til og líður betur þessa stundina. Nú langar mig að komast að því hvað gerðist og hvað orsakaði hjartaáfallið,“ sagði Eriksen.

Simon Kjær, fyrirliði danska liðsins, sem sýndi snör viðbrögð á vellinum og hughreysti kærustu Eriksen, og Kasper Schmeichel, markvörður Danmerkur, sem þótti einnig sýna leiðtogahæfileika sína, heimsóttu Eriksen á sjúkrahúsið í dag.

„Það er hræðileg upplifun að sjá vin sinn berjast fyrir lífi sínu en erfiðast er þó að setja sig í spor kærustu hans og barna þeirra tveggja. Það er magnað kraftaverk að hann sé á lífi. Það er aðalatriðið," sagði Schmeichel.

„Það var góð tilfinning að hitta hann, sjá hann brosa og grínast með honum. Það var mikilvægt fyrir okkur að finna fyrir því að honum liði betur,“ sagði markvörðurinn enn fremur.