Christian Eriksen, leikmaður danska karlalandsliðsins í fótbolta, birtir í morgunsárið mynd af sér á Instagram-síðu sinni þar sem hann er brosandi með þumalinn upp.

Eriksen fór í hjartastopp á laugardaginn var í leik Danmerkur gegn Finnlandi í lokakeppni Evrópumótsins.

Viðbragðsaðilar á Parken í Kaupmannahöfn komu Eriksen til bjargar og sóknartengiliðurinn er á batavegi en líðan hans er stöðug.

Eriksen verður undir eftirliti á ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn næstu daga en þar mun hann undirgangast rannsóknir þar sem freistað verður þess að komast að orsökum hjartaáfallsins.

„Kærar þakkir fyrir allar hlýju kveðjurnar sem ég hef fengið síðustu sólarhringa og þau fallegu skilaboð sem ég hef fengið hvaðanæva úr heiminum.

Þetta hefur mikla þýðingu fyrir mig og mína fjölskyldu. Mér líður vel þessa stundina sérstaklega miðað við aðstæður.

Ég mun næstu daga fara í rannsóknir á spítalanum en ég er í góðum höndum og er allur að koma til

Nú mun ég styðja liðsfélaga mína í danska landsliðinu í komandi leikjum liðsins á Evrópumótinu. Spilið fyrir dönsku þjóðina," segir Eriksen í færslunni.