Christian Erik­sen, leik­maður danska karla­lands­liðsins í knatt­spyrnu, mun gangast undir að­gerð þar sem bjarg­ráður verður græddur í hann.

Erik­sen fór í hjarta­stopp um síðustu helgi í leik Dana og Finna á Evrópu­mótinu sem nú stendur yfir. Endur­lífgunar­til­raunir, meðal annars með hjarta­stuð­tæki, báru árangur og hefur Erik­sen dvalið á Ríkis­spítalanum í Kaup­manna­höfn undan­farna daga þar sem hann jafnar sig.

Mor­ten Boesen, læknir danska lands­liðsins, sagði á blaða­manna­fundi í morgun að á­kveðið hefði verið að setja gang­ráð í Erik­sen eftir að hann gekkst undir um­fangs­miklar rann­sóknir í vikunni.

Á vefnum hjartalif.is kemur fram að bjarg­ráður sé ís­lenskt heiti á lækninga­tæki sem á ensku kallast ICD. Er honum ætlað að með­höndla of hraðar og lífs­hættu­legar hjart­sláttar­truflanir.

„Allir bjarg­ráðar eru einnig með gang­ráðs­tækni sem grípur inn í starf­semi hjartans ef hjart­sláttur verður of hægur,“ segir á vefnum en bjarg­ráðurinn er um það bil átta sentí­metrar að lengd, sjö sentí­metrar á breidd og vegur um 90 grömm.