Christian Eriksen, leikmaður danska landsliðsins í fótbolta, er nú á sjúkrahúsi eftir að hann hneig niður í leik Dana gegn Finnum á EM í fótbolta en endurlífgunartilraunir, þar á meðal hjartahnoð, voru reyndar á Eriksen áður en hann var fluttur af vellinum á sjúkrabörum.

Á myndum skömmu eftir atvikið sást Eriksen með opin augun þegar hann var fluttur af vellinum. UEFA hefur nú gefið það út að Eriksen sé á lífi og ástand hans sé nú stöðugt en lítið var vitað um líðan Eriksen í fyrstu.

Eriksen er nú vakandi á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn, að því er kemur fram í frétt DR um málið, þar sem ástand hans verður kannað nánar.

Krísufundur hefur nú farið fram milli danska og finnska liðsins og UEFA en von er á frekari upplýsingum um málið klukkan 17:45 að íslenskum tíma.

Leiknum hefur þegar verið aflýst vegna málsins.

Uppfært 17:58:

Áhorfendum var gert að sitja áfram í sætum sínum þar til frekari upplýsingar myndu liggja fyrir en þeir hafa nú fengið þær upplýsingar að Eriksen sé vakandi.