Erik Hamrén, þjálfari ís­lenska karla­lands­liðsins, segir að lands­liðsfólki hafi verið hótað lífláti eftir að hið svo­kallaða bursta­mál kom upp í um­ræðunni í þessari viku en Hamrén var spurður að því á blaða­manna­fundi hvort að það hafi haft ein­hver á­hrif á undir­búning liðsins fyrir leikinn.

Vart þarf að taka það fram að Ís­land fór með sigur af hólmi í leiknum með tveimur mörkum gegn einu marki Tyrk­lands en liðs­menn Tyrkja voru nokkuð pirraðir í lok leiksins. Ragnar Sigurðs­son skoraði bæði mörk ís­lenska liðsins.

„Nei, við ein­beittum okkur bara að leiknum sjálfum og hugsuðum ekki um það at­riði,“ segir Hamrén þegar hann var spurður út í stóra bursta­málið

„Ég veit ekki hvort ég eigi að vera að segja þetta en ég var sorg­mæddur í gær af því að fullt af leik­mönnum frá Ís­landi, ekki bara úr aðal­liðinu, var hótað. Af fólki. Og það gerir mig sorg­mæddan því að þá er þetta klikkaður heimur.

Af því að leik­mennirnir og liðið hafði ekkert um þetta at­vik að segja. Þeir eru al­gjör­lega sak­lausir og er svo hótað líf­láti af fólki og mér finnst það leitt að heimurinn sé svo klikkaður,“ segir Hamrén.

„Við töluðum ekki einu sinni um þetta at­vik. Við ein­beittum okkur bara að fót­boltanum og að verkinu sjálfu.“