Erik Hamrén sem stýrði íslenska karlalandsliðinu frá 2018 til 2020 segist hafa hafnað tilboði um landsliðsþjálfarastarf frá þremur löndum og þjálfarastarfi frá fjórum mismunandi félögum eftir að hann hætti störfum hjá KSÍ.
Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Hamrén sem birtist í Expressen. Þar kemur fram að Hamrén eigi von á fyrsta barnabarni sínu síðar á þessu ári en hann varð 65 ára í gær og er því kominn á ellilífeyrisaldur í Svíþjóð.
„Eftir að ég hætti hjá Íslandi er ég búinn að fá tilboð um að taka við þremur mismunandi landsliðum og önnur fjögur tilboð frá félagsliðum. Af mismunandi ástæðum hef ég hafnað öllum til þessa.“
Í viðtalinu ræðir Hamrén við Stefan Nilsson, blaðamann Expressen, um ákvörðunina að hafna tilboði Örgryte að taka við félaginu en Brynjar Björn Gunnarsson tók síðar við starfinu.
Hamrén staðfesti að hann hefði rætt við Brynjar um starfið eftir að hafa fengið Brynjar til félagsins þegar Brynjar var leikmaður en um leið að hann hefði ekki komið að ákvörðun félagsins að ráða Íslendinginn.