„Þetta var hrikalega erfitt, ég get aldrei þakkað Óla nógu mikið fyrir það sem hann gerði fyrir mig sem leikmaður. Þetta var erfið ákvörðun sama hvernig maður lítur á hana. Þetta eru tveir algjörir toppmenn, þetta snýst um úrslit og þetta snýst um að snúa gengi liðsins við. Við töldum rétt að nýir menn kæmu inn með ferskar hugmyndir og reyndu að hífa okkur upp töfluna,“ segir Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH, við Fréttablaðið. Davíð var einn af þeim sem sat fundinn með Ólafi þegar hann var rekinn úr starfi. Davíð var fyrirliði FH undir stjórn Ólafs á árum áður og var aðstoðarþjálfari hans á síðustu leiktíð.

Ólafur og Sigurbjörn voru reknir skömmu eftir jafntefli gegn Leikni á heimavelli í síðustu viku. „Þetta snýst um úrslit og þau voru ekki að falla með okkur, við höfum heyrt af þeirri umræðu af hverju við hefðum ekki farið í breytingar í hléinu. Við höfðum enn trú á að Óli og Bjössi gætu snúið þessu við, Óli er sá þjálfari sem hefur gert hvað mest fyrir FH í sögulegu samhengi. Hann er goðsögn í FH og það var enn trú á að þetta frí myndi hjálpa okkur og við kæmum sterkari út úr því. Eftir Leiknis-leikinn fannst okkur við vera komnir á endastöð og breytinga væri þörf.“

„Ákvörðunin var tekin sama kvöld en það var ekki farið beint niður í klefa og farið í þetta, við funduðum eftir leikinn og komumst að þessari niðurstöðu. Svo má hafa skoðun á því hvort það hefði verið betra að gera þetta daginn eftir, þetta var sú tímasetning sem við ákváðum að gera hana á. Við töldum þetta rétta ákvörðun og svo verður fólk bara að hafa sínar skoðanir.“

Eiður Smári og Sigurvin stýrðu FH í fyrsta sinn í fyrrakvöld þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við ÍA í Bestu deildinni. „Við erum hæstánægðir og teljum okkur hafa fundið mjög gott teymi í þeim tveimur. Þegar þessi ákvörðun var tekin, þá lá það beinast við að heyra í Eiði Smára og sjá hvar hans hugur væri. Honum leið vel hérna fyrir tveimur árum og sýndi hversu frambærilegur þjálfari hann er. Eiður var sá maður sem við vildum fá inn, það var ánægjulegt að það skyldi hafa tekist að sannfæra hann um að koma aftur,“ segir Davíð Þór