Sif Atladóttir, landsliðsmiðvörður í fótbolta, sneri heim á síðasta ári eftir tólf ár í atvinnumennsku í Svíþjóð þar sem hún afrekaði meðal annars að vera leikjahæsti Íslendingurinn í sögu sænsku úrvalsdeildarinnar. Hún og eiginmaður hennar, Björn Sigurbjörnsson, eru búsett á Selfossi ásamt tveimur börnum sínum en Sif leikur með Selfossi í Bestu deild kvenna. Sif er í opinskáu og ítarlegu viðtali í Fréttablaði dagsins.
Í viðtalinu talar hún meðal annars um föður sinn og baklandið sem hún á að í knattspyrnubrölti sínu. Pabbi Sifjar, Atli Eðvaldsson, var einnig atvinnumaður í fótbolta, hann lék 70 landsleiki fyrir Ísland og varð seinna meir farsæll þjálfari. Hann hafði mikil áhrif á hana eins og reyndar fleiri fjölskyldumeðlimir.

„Þegar kemur að íþróttum hef ég verið ótrúlega heppin með stuðning frá foreldrum mínum, systkinum, eiginmanni og tengdafjölskyldu. Þetta hefur verið lykill að góðum ferli og pabbi var eitt akkeri þar. Ég, eins og fleiri afreksíþróttamenn, er mjög sjálfsgagnrýnin og átti oft erfitt með að sjá það jákvæða í leiknum hjá mér þegar leikir töpuðust. Þá var alltaf tekið spjall þar sem hann spurði hvað ég gerði vel og hvað væri hægt að læra af þessum leik. Þetta voru alltaf jákvæðar og uppbyggjandi samræður.
Atli, faðir Sifjar lést þann 2. september árið 2019 eftir baráttu við krabbamein. ,,Þótt pabbi sé ekki lengur hér þá hef ég samt þetta akkeri í Bjössa og fólkinu mínu, sem er ómetanlegt.“ Hún segir pabba sinn alltaf talað um mikilvægi þess að hugsa vel um yngri leikmenn liðsins.
„Ef það er stanslaus yfirgangur gagnvart yngri leikmönnum, bara af því að þeir eru yngri, hvers vegna ættu þeir að senda á þig þegar þú ert í færi fyrir framan markið eða hlusta á þig þegar þú segir eitthvað inni á vellinum? Ég hef því reynt að temja mér það að vera til staðar fyrir yngri leikmenn. Það er erfitt að koma því í orð hvaða áhrif pabbi hafði á mig sem leikmenn en ég held að við séum líkir karakterar sem leikmenn. Vinnusemi, þrautseigja, réttlætiskennd og stórt hjarta lýsir okkur nokkuð vel.“