Mercedes er mætt aftur til leiks í For­múlu 1. Þetta kristallast í úr­slitum helgarinnar í Brasilíu þar sem liðið skilaði bílum sínum í fyrsta og annað sæti. Erfið­leikarnir virðast að baki, lið­sandinn er góður og nú þegar eru vonir um titil­bar­áttu á næsta tíma­bili farnar að aukast.

Eftir ó­rofna sigur­göngu í heims­meistara­keppni bíla­smiða frá árinu 2014 til 2021 hefur Mercedes þurft að sætta sig við annað hlut­skipti á yfir­standandi tíma­bili þar sem er keppt á nýrri kyn­slóð For­múlu 1 bíla og við breytt reglu­verk.

Yfir­leitt hefur Mercedes hitt naglann á höfuðið þegar kemur að stórum reglu­breytingum í móta­röðinni en þó hefur liðið átt erfitt upp­dráttar á yfir­standandi tíma­bili og aldrei blandað sér í titil­bar­áttu.

Þó er ekki hægt að segja annað en leiðin hafi verið upp á við hjá liðinu á tíma­bilinu ef horft er á stöðu þess í fyrstu keppnis­helgi tíma­bilsins. Árangurinn sem náðst hefur kristallast í frammi­stöðunni í Brasilíu um ný­liðna helgi, það að enda í fyrsta og öðru sæti í Brasilíu gefur liðinu mikið, sér í lagi fyrir næsta tíma­bil

Toto Wolff, liðs­stjóri Mercedes hafði áður látið hafa eftir sér að það myndi gefa liðinu meira að ná sigri í keppni á tíma­bilinu heldur en að enda í 2. sæti í stiga­keppni bíla­smiða, það yrði sönnun þess að liðið væri á réttir leið. Nú hefur tak­markinu verið náð.

Sjö­faldi heims­meistarinn Sir Lewis Hamilton hefur gengið í gegnum alla þessa veg­ferð með Mercedes frá því að liðið hóf sína sigur­göngu árið 2014. Það eru fáir sem þekkja liðið eins vel og Hamilton.

Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes
GettyImages

Mercedes komið aftur á toppinn.

„Það sem skiptir okkur mestu máli er að hafa náð í þessi úr­slit, þetta mun gefa okkur mikinn kraft fyrir komandi vetur sem og næsta tíma­bil. Við vitum núna að við erum á réttri leið," sagði Hamilton í við­tali eftir kapp­akstur gær­dagsins.

Mercedes sé ennþá besta liðið.

„Nú komumst við aftur á þann stað að geta unnið reglu­lega á næsta tíma­bili, ég er spenntur fyrir því.“

Sir Lewis Hamilton og George Russell, ökumenn Mercedes voru að vonum himinlifandi með árangur helgarinnar
Fréttablaðið/GettyImages

Eru á góðum stað

Það verður ekki fram hjá því litið að Mercedes hefur náð góðum árangri með því að koma bíl sínum á þann stað sem hann er á í dag, að geta barist við Red Bull Ra­cing og Ferrari innan brautar.

Um er að ræða fyrsta tíma­bil á nýrri kyn­slóð For­múlu 1 bíla, kyn­slóð sem verður notast við næstu árin og nú reynir á liðin í For­múlu 1 að nýta sér reynslu þessa tíma­bils inn í þróun bílsins í vetur sem og á næsta tíma­bili.

Ætla má að erfið­leikarnir sem Mercedes hefur gengið í gegnum muni nýtast liðinu vel í bar­áttu næsta tíma­bils. Þá eru engar vanga­veltur eða efa­semdir um öku­menn liðsins.

Hamilton virðist endur­nærður eftir von­brigði síðasta tíma­bils þar sem hann laut í lægra haldi fyrir Ver­stappen í bar­áttunni um heims­meistara­titil öku­manna. Þá hefur Geor­ge Rus­sell sýnt það að mikið er í hann spunnið, það sem meira er þá hefur hann sannað að hann getur unnið keppni í For­múlu 1.