Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur aldrei átt erfiðara með að velja landsliðshóp sinn en nú. Hann er brattur fyrir afar mikilvægum leikjum í undankeppni Evrópumótsins síðar í mánuðinum.
Íslenska karlalandsliðið mætir Bosníu og Hersegóvínu þann 23. mars og Liechtenstein þremur dögum síðar í undankeppni EM 2024. Báðir leikir fara fram ytra. Arnar Þór Viðarsson kynnti 23 manna hóp sinn á miðvikudag og þar komu nokkrir áhugaverðir punktar í ljós.
„Valið var ansi erfitt í þetta skiptið. Ég held að það sé engin spurning að ég hafi fengið mesta hausverkinn við að velja þennan hóp vegna þess að leikmenn, bæði ungir sem aldnir, eru að spila mikið og spila vel,“ segir Arnar í samtali við Fréttablaðið.
Albert vildi byrja
Albert Guðmundsson er sá leikmaður sem hefur verið á milli tannanna á fólki undanfarið. Arnar hefur ekki valið hann í hóp sinn síðan í haust og er samband þeirra ekki talið gott.
„Ég hringdi í Albert og bauð honum að koma til baka. Eins og ég hef alltaf sagt er hurðin alltaf opin,“ segir Arnar.
Albert var hins vegar ekki tilbúinn að koma inn í landsliðið á forsendum liðsins.
„Í þessari undankeppni, eins og alltaf, eru leikir sem öskra á hæfileika Alberts. En það eru líka leikir sem kalla á annars konar hæfileika og önnur leikplön. Ég get ekki, sem þjálfari, valið leikmann í hóp hjá mér sem er ekki tilbúinn til að byrja á bekknum í ákveðnum leikjum og taka því hlutverki sem við teljum að sé best fyrir liðið.
Við áttum mjög gott spjall. Það er ekkert illt á milli mín og Alberts. En þegar ég tjáði honum að hann myndi byrja á bekknum á móti Bosníu lét hann mig vita að hann væri ekki tilbúinn í það,“ segir Arnar og bætir við að dyrnar séu alltaf opnar fyrir Albert.
Þetta er langhlaup
Annar leikmaður sem hefur verið í umræðunni er Dagur Dan Þórhallsson. Kappinn átti frábært tímabil með Íslandsmeisturum Breiðabliks og fékk í kjölfarið félagaskipti til Orlando City vestanhafs í vetur. Þá heillaði Dagur í landsleikjum í nóvember og janúar. Hann var hins vegar ekki valinn í hópinn fyrir komandi leiki gegn Bosníu og Liechtenstein.
„Dagur er á brúninni. Hann er ekki bara byrjaður að banka á dyrnar, hann er farinn að berja á þær. Hann stóð sig mjög vel í nóvember og mér fannst hann standa sig enn betur í janúar. Hann er orðinn alvöru leikmaður, kominn á það stig að vera landsliðsmaður. Sem betur fer fær maður stundum lúxus-hausverk yfir því að þurfa að skilja góða leikmenn eftir utan hóps.“
Auk Íslands, Bosníu og Liechtenstein eru í undanriðlinum Lúxemborg, Portúgal og Slóvakía. Arnar segir næstu tvo leiki mikilvæga en mótið sé þó langhlaup.
„Við förum auðvitað inn í alla leiki til að ná í stig. Það er ekkert öðruvísi núna. Þetta eru tveir mismunandi leikir. Við þurfum að vera meðvitaðir um það að Bosnía er með mjög gott lið og erfitt heim að sækja.
Við þurfum líka að horfa á stærri myndina. Þetta er maraþon. Við vitum sirka hvað við þurfum að fá mörg stig til að ná í annað sætið. Það er líklegt að nokkur lið taki stig hvort af öðru. Fyrsti leikurinn er mikilvægur en þetta er ekki úrslitaleikur.“

Arnar segir að riðillinn sem Ísland dróst í bjóði upp á góða möguleika fyrir liðið.
„Það væri mjög dapurt af mér að standa hérna og segja að ég væri óánægður með dráttinn. En Slóvakía segir það sama, sem og Bosnía og Lúxemborg. Þetta verður opinn riðill. Þetta er langhlaup og við þurfum að sanka að okkur stigum á næstu mánuðum. Vonandi getum við klárað þetta skemmtilega verkefni sem sigurvegarar í lok árs.“