Arnar Þór Viðars­son, þjálfari ís­lenska karla­lands­liðsins í knatt­spyrnu, hefur aldrei átt erfiðara með að velja lands­liðs­hóp sinn en nú. Hann er brattur fyrir afar mikil­vægum leikjum í undan­keppni Evrópu­mótsins síðar í mánuðinum.

Ís­lenska karla­lands­liðið mætir Bosníu og Hersegóvínu þann 23. mars og Liechten­stein þremur dögum síðar í undan­keppni EM 2024. Báðir leikir fara fram ytra. Arnar Þór Viðars­son kynnti 23 manna hóp sinn á mið­viku­dag og þar komu nokkrir á­huga­verðir punktar í ljós.

„Valið var ansi erfitt í þetta skiptið. Ég held að það sé engin spurning að ég hafi fengið mesta haus­verkinn við að velja þennan hóp vegna þess að leik­menn, bæði ungir sem aldnir, eru að spila mikið og spila vel,“ segir Arnar í sam­tali við Frétta­blaðið.

Albert vildi byrja

Albert Guð­munds­son er sá leik­maður sem hefur verið á milli tannanna á fólki undan­farið. Arnar hefur ekki valið hann í hóp sinn síðan í haust og er sam­band þeirra ekki talið gott.

„Ég hringdi í Albert og bauð honum að koma til baka. Eins og ég hef alltaf sagt er hurðin alltaf opin,“ segir Arnar.

Albert var hins vegar ekki til­búinn að koma inn í lands­liðið á for­sendum liðsins.

„Í þessari undan­keppni, eins og alltaf, eru leikir sem öskra á hæfi­leika Alberts. En það eru líka leikir sem kalla á annars konar hæfi­leika og önnur leik­plön. Ég get ekki, sem þjálfari, valið leik­mann í hóp hjá mér sem er ekki til­búinn til að byrja á bekknum í á­kveðnum leikjum og taka því hlut­verki sem við teljum að sé best fyrir liðið.

Við áttum mjög gott spjall. Það er ekkert illt á milli mín og Alberts. En þegar ég tjáði honum að hann myndi byrja á bekknum á móti Bosníu lét hann mig vita að hann væri ekki til­búinn í það,“ segir Arnar og bætir við að dyrnar séu alltaf opnar fyrir Albert.

Þetta er lang­hlaup

Annar leik­maður sem hefur verið í um­ræðunni er Dagur Dan Þór­halls­son. Kappinn átti frá­bært tíma­bil með Ís­lands­meisturum Breiða­bliks og fékk í kjöl­farið fé­laga­skipti til Or­lando City vestan­hafs í vetur. Þá heillaði Dagur í lands­leikjum í nóvember og janúar. Hann var hins vegar ekki valinn í hópinn fyrir komandi leiki gegn Bosníu og Liechten­­stein.

„Dagur er á brúninni. Hann er ekki bara byrjaður að banka á dyrnar, hann er farinn að berja á þær. Hann stóð sig mjög vel í nóvember og mér fannst hann standa sig enn betur í janúar. Hann er orðinn al­vöru leik­maður, kominn á það stig að vera lands­liðs­maður. Sem betur fer fær maður stundum lúxus-haus­verk yfir því að þurfa að skilja góða leik­menn eftir utan hóps.“

Auk Ís­lands, Bosníu og Liechten­stein eru í undan­riðlinum Lúxem­borg, Portúgal og Slóvakía. Arnar segir næstu tvo leiki mikil­væga en mótið sé þó lang­hlaup.

„Við förum auð­vitað inn í alla leiki til að ná í stig. Það er ekkert öðru­vísi núna. Þetta eru tveir mis­munandi leikir. Við þurfum að vera með­vitaðir um það að Bosnía er með mjög gott lið og erfitt heim að sækja.

Við þurfum líka að horfa á stærri myndina. Þetta er mara­þon. Við vitum sirka hvað við þurfum að fá mörg stig til að ná í annað sætið. Það er lík­legt að nokkur lið taki stig hvort af öðru. Fyrsti leikurinn er mikil­vægur en þetta er ekki úr­slita­leikur.“

Fréttablaðið/Getty Images

Arnar segir að riðillinn sem Ís­land dróst í bjóði upp á góða mögu­leika fyrir liðið.

„Það væri mjög dapurt af mér að standa hérna og segja að ég væri ó­á­nægður með dráttinn. En Slóvakía segir það sama, sem og Bosnía og Lúxem­borg. Þetta verður opinn riðill. Þetta er lang­hlaup og við þurfum að sanka að okkur stigum á næstu mánuðum. Vonandi getum við klárað þetta skemmti­lega verk­efni sem sigur­vegarar í lok árs.“