Sunna Rannveig Davíðsdóttir, Sunna Tsunami eins og hún er þekkt í heimi blandaðra bardagalista, er enn frá vegna meiðsla en vonast til að geta barist fljótlega á nýju ári. Á laugardaginn verða sautján mánuðir síðan hún barðist síðast þar sem hún vann þriðja bardaga sinn á atvinnumannsferlinum í Invicta-bardagasamtökunum gegn Kelly D'Angelo. 

Hún er ein af fremstu bardagakonum landsins en leiðinleg meiðsli sem tóku sig upp í bardaga hennar gegn Mallory Martin í fyrra hafa dregið dilk á eftir sér.

„Þetta eru gömul meiðsli frá bardaganum gegn Mallory. Hún er með mjög harðan haus sem er eins og veggur og það laskaði hendina á mér. Eftir þann bardaga fór ég í myndatökur og þar kom ekkert í ljós hvað var að hendinni þannig að ég tók strax næsta bardaga og barðist stuttu síðar gegn Kelly,“ segir Sunna sem átti erfitt með að æfa fyrir þann bardaga.

„Höndin var nánast ónýt, ég gat ekki kýlt tveimur vikum fyrir bardaga og í öllum myndatökum sást ekki neitt, hvorki brot né það að ég reif öll liðbönd í þeim hnúa sem ég nota mest þegar ég kýli. Svo fór smábein úr liði sem á varla að vera hægt og það kom ekki í ljós fyrr en sérstakur handasérfræðingur sá þetta í samstarfi með röngtenlækni. Þá sáu þeir loksins hvað hafði farið úrskeiðis.“

Sunna hefur ekki farið í aðgerð vegna meiðslanna.

„Rökrétt hefði verið að fara strax í aðgerð þegar þetta kemur upp en þetta greindist svo seint og ég var búin að fara í annan bardaga svo að það var tvísýnt hvaða árangur myndi nást með aðgerðinni. Það hefði tekið sex mánuði í endurhæfingu og svo hefði ég jafnvel þurft að fara í aðra aðgerð út frá því. Ég hef farið eftir ráðum hvernig best er að vinna að endurhæfingu og hef á trú á hæfni líkamans til að laga þetta.“

Sunna hefur sinnt þjálfun hjá Mjölni og tekið þátt í daglegu starfi til að dreifa huganum.

„Þetta hefur verið erfiður tími, langt tímabil, en það hefur hjálpað mér mikið að taka þátt í starfi Mjölnis við að þjálfa. Það hefur dreift huganum. Erfiðasta við þetta allt saman er hausinn á manni, hvort þetta sé varanlegt og vera að velta framhaldinu fyrir sér. Um tíma átti ég erfitt með að lyfta vatnsglasi og prjóna en núna get ég prjónað, haldið á stórri vatnsflösku og kýlt hluti þannig þetta er allt að koma til,“ sagði Sunna glaðbeitt.

„Höndin er ekki eins og verður aldrei aftur 100 prósent en ég er búin að sætta mig við það. Það er allt á réttri leið og ég sé bjarta tíma fram undan.“

Búið var að samþykkja bardaga gegn Jamie Moyle sem átti að fara fram á laugardaginn en hún þurfti að hætta við vegna meiðslanna.

„Ég var búin að bóka bardaga 15. desember þar sem ég átti að mæta Jamie Moyle sem hefði verið frábær bardagi fyrir mig en ég þurfti að hætta við vegna meiðslanna. Hún hefur tvívegis barist í UFC og þetta hefði verið góður stökkpallur fyrir minn feril. Ég er ennþá svolítið að naga mig í handarbökin út af því að hafa hætt við þann bardaga en á sama tíma þakklát fyrir að hafa gefið líkamanum lengri tíma til endurhæfingar,“ sagði Sunna sem sinnir endurhæfingunni á stað sem er henni afar kær.

„Ég ákvað að koma til Taílands til að hlaða batteríin á sama tíma og njóta lífsins og æfa á fullu. Hér tók ég fyrstu bardaga mína og það er táknrænt að koma hingað aftur með dóttur mína og æfa saman. Ég er að finna aftur eldmóðinn og ég er alls ekki hætt, þegar ég kem heim þá set ég allt á fullt og stefni á að berjast næst í mars.“