„Það hefur verið mjög gaman að komast í þennan hita og á þennan völl að undirbúa okkur fyrir stóru stundina,“ sagði Björn Bergmann Sigurðarson fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Kabardinka í dag.

Björn Bergmann þekkir ágætlega til í Rússlandi en hann leikur með Rostov í rússnesku úrvalsdeildinni.

„Þetta er mjög svipað og í Rostov, svipaðir vellir og svo er það líka hitinn. Staðirnir hjá Svartahafinu eru mjög svipaðir. Maður þarf bara að venjast hitanum,“ sagði Björn Bergmann.

Góðir og slæmir kaflar

Íslenska liðið lék tvo vináttulandsleiki áður en það hélt til Rússlands. Ísland tapaði 2-3 fyrir Noregi og gerði 2-2 jafntefli við Gana.

„Leikirnir gengu ágætlega og það voru góðir og slæmir kaflar. En markmiðið með leikjunum var að gera okkur klára fyrir HM. Við reynum að bæta það sem miður fór og byggja ofan á hitt. Úrslitin skipta engu,“ sagði Björn Bergmann. Hann kveðst nokkuð sáttur með sína frammistöðu í leikjunum tveimur.

„Ég var duglegur og vann mikið. Það var framför frá Noregsleiknum í leiknum gegn Gana. Maður þurfti að spila 90 mínútur til að komast almennilega í gang.“

Aðspurður um hvað þjálfarateymið fer fram á frá Birni Bergmann hafði hann þetta að segja: „Maður þarf að vera góður í liðinu og passa inn í það. Mér finnst ég vera slíkur leikmaður. Maður þarf að leggja hart að sér og gera það sem gera þarf.“

Rólegur þótt mörkin komi ekki

Björn Bergmann hefur skorað eitt mark fyrir íslenska landsliðið, gegn Kósovó í undankeppni HM. Hann sefur rólegur þótt honum hafi ekki tekist að bæta við mörkum síðan þá.

„Á meðan það eru aðrir sem skora mörkin skiptir engu máli þótt ég skori ekki. Aðalmálið er að fá eitthvað út úr leikjunum,“ sagði Björn Bergmann sem var óvænt valinn í landsliðið síðasta haust, eftir fimm ára útlegð frá því. Hann segist ekki hafa búist við því að fara á HM með landsliðinu.

„Ég bjóst aldrei við þessu. Ég held líka að þeir í landsliðinu hafi aldrei búist við að fara á HM. Það kom mörgum á óvart þegar við komust hingað. Þetta er geggjað fyrir Ísland,“ sagði Björn Bergmann. „Ég sé ekki eftir neinu. Að vera með eftir langa fjarveru og fá að taka þátt í þessu og vera hluti af hópnum, ég er svo ánægður að ég get ekki lýst því.“