Hlynur kom í mark á tímanum 8:04,54 mínútum en hann bætti Íslandsmetið um rúma sekúndu. Fyrra metið var 8:05,63 mínútur en Jón Diðriksson setti það árið 1983. Hlynur á nú þegar Íslandsmetin í 5.000 og 10.000 metrum utanhúss og 3.000 metra hindrun innanhúss. Þetta er hans áttunda Íslandsmet. Hlynur á einnig Íslandsmetið í greininni innanhúss þar sem hann hefur hlaupið undir átta mínútum.

„Ég var fyrst og fremst að velta því fyrir mér hvar ég stæði á þessum tímapunkti eftir langa pásu frá keppnum vegna kórónaveirunnar. Það var erfitt að fara með miklar væntingar inn í þetta fyrsta keppnishlaup á keppnistímabilinu. Ég vissi samt að ég væri í góðu formi þó að ég sé ekki í keppnisformi eins og sakir standa. Það var frábær tilfinning að keppa á nýjan leik. Þó ég njóti þess að æfa þá er maður í þessu til þess að keppa. Það gefur mér lífsfyllingu að keppa við aðra.

Ég var ekki með þetta Íslandsmet í huga þegar ég hljóp af stað og raunar er ég fremur að líta til þess að koma mér inn á stórmót eins og Ólympíuleika, Evrópumót og heimsmeistaramót hvað tíma varðar. Það var hins vegar ánægjulegur bónus við það að finna hvað ég er í góðu formi og vinna þetta mót, að setja þetta Íslandsmet,“ segir Hlynur í samtali við Fréttablaðið.

Þetta mót sem var tiltölulega lítið mót, sem haldið var í Hollandi þar sem Hlynur býr og æfir, var fyrsta mót Hlyns í sumar en hann hefur mikið þurft að æfa einn síðustu vikur vegna afleiðinga kórónuveirunnar. Hann flutti sig nýverið frá Arnheim til Leiden í Hollandi en í Leiden æfir hann með nýjum æfingahópi.

„Ég er áfram með meginfókusinn á það að koma mér inn á Ólympíuleikana í 3.000 metra hindrunarhlaupi. Það var ákveðinn skellur að árinu hafi verið snúið á hvolf vegna veirunnar og Ólympíuleikunum hafi verið frestað. Það er hins vegar lítið við því að gera, nú er bara að setja hausinn á leikana næsta sumar. Það eru mjög fáir sem komast inn á leikana með því að ná lágmarkinu sem hefur verið sett til þess að komast inn á leikana, en það er líklegra að ég komist inn í gegnum heimslistann,“ segir hlauparinn öflugi.

„Það er geggjað að vera kominn aftur í rútínu og að keppa reglulega. Auk þess að stefna að því að bæta mig og koma mér inn á komandi stórmót er ég líka að keppa að því að hlaupa mig inn í styrktarsamninga hjá íþróttavörumerkjum á borð við Adidas og Nike. Næsta hlaup hjá mér er um næstu helgi hér í Hollandi en það er 5.000 metra götuhlaup, en svo hleyp ég aftur 3.000 metra hlaup í Belgíu eftir tæpar þrjár vikur,“ segir hann um framhaldið.