Leikmenn í ensku úrvalsdeildinni samþykktu einróma að hefja aftur æfingar í dag. Mega leikmenn byrja að æfa fimm saman í hópi. Þetta er hluti af fyrsta stigi í að koma deildinni aftur af stað, sem kallast Project Restart. Alls voru 3.534 ný tilfelli af COVID-19 í landinu staðfest á sunnudag en aðeins 589 í Þýskalandi þar sem boltinn er farinn að rúlla af stað.

Troy Deeney, fyrirliði Watford, getur ekki beðið eftir að komast aftur á völlinn en líst illa á næstu stig. „Fyrsta stig er ekkert mál en annað stig, sem er áætlað í næstu viku, leyfir að fleiri mega æfa saman og svo sex dögum eftir það eru það 11 gegn 11. Ég get ekki beðið eftir að komast út á völl en það verður að vera öruggt fyrir alla. Tommy Abraham býr með pabba sínum og hann er með astma. Fullt af leikmönnum sendir mér skilaboð á hverjum degi því þeir vilja ekki koma fram og tjá sig.

Mikill stuðningur er um stig eitt en stuðningurinn fer minnkandi á stigi tvö. Ég get ekki ímyndað mér þegar allir fara að mæta því þá er erfitt að halda fjarlægð,“ sagði Deeney við Good Morning Britain – en Piers Morgan er meðal stjórnenda þar á bæ.