Enska úrvalsdeildin í knattspyrnu karla mun ekki fara af stað á nýjan leik í maí og ekki verður byrjað að spila fyrr en það þyki öruggt að gera svo. Hlé sem gert hefur verið á deildinni vegna kórónaveirufaraldursins er áfram ótímabundið. Þetta kom fram á fjarfundi forráðamanna ensku úrvalsdeildarinnar sem haldinn var í dag.

Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hefur lagt fram þau tilmæli til forráðamanna deildarkeppnanna í Evrópu og félaganna í þeim deildum að klára þær deildir sem eru í hléi þessa stundina vegna faraldursins. Talið er að svo miklir peningar séu í húfi fyrir ensku úrvalsdeildina að mikill þrýstingur sé á að leika þá leiki sem eftir eru.

Þá hefur því enn fremur verið fleygt fram að UEFA sé með það til athugunar að félög úr þeim deildarkeppnum sem ekki verða kláraðar fái ekki þátttökurétt í Evrópukeppnum félagsliða á næsta keppnistímabili.

Forráðamenn félaganna í ensku úrvalsdeildinni munu leggja það til við leikmenn deildarinnar að þeir lækki allir laun sinn um 30% á meðan faraldurinn gengur yfir. Þá mun enska úrvalsdeildin leggja fram 125 milljón punda framlag til ensku 1. deildarinnar og 20 milljónir punda verða gefnar í baráttuna gegn COVID-19-veirunni.

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, skoraði í vikunni á leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar að leggja sitt af mörkum fjárhagslega í þá baráttu sem fram undan er við veiruna.

Leikmenn deildarinnar hafa síðustu dagana rætt það sín á milli undir forystu Jordan Henderson, fyrirliða Liverpool, að setja á fót sjóð sem myndi láta fé af hendi rakna til viðeigandi stofnana sem sinna baráttunni gegn veirunni á einhvern hátt.