Harry Kane, fyrir­liði og fram­herji enska lands­liðsins í knatt­spyrnu mun þurfa að gangast undir mynda­töku og frekari rann­sóknir á ökkla fyrir næsta leik liðsins á HM í Katar. Frá þessu greina miðlar í Bret­landi en Kane fékk högg á ökklann í leik Eng­lands gegn Íran á dögunum og sást haltra eftir leik.

Kane, sem er einnig leik­maður Totten­ham, er næst marka­hæsti leik­maður enska lands­liðsins frá upp­hafi og væri um mikið högg fyrir Eng­lendinga að ræð ef hann yrði frá í næstu leikjum liðsins vegna meiðsla.

Eftir leik sagði Gareth Sout­hgate að það yrði allt í góðu lagi með Kane en nú virðist annað hljóð komið í strokkinn og talið nauð­syn­legt að mynda þurfi ökkla leik­mannsins.

Sky Sports greinir frá því að sú stað­reynd að á­kveðið hafi verið að láta mynda ökklann á Kane þýði að hann eigi enn erfitt með að stíga í fótinn.

Leikið er þétt á HM í riðla­keppninni, næsti leikur Eng­lands, sem vann Íran 6-2 á dögunum, er gegn Banda­ríkjunum á föstu­daginn. Liðið leikur síðan sinn loka­leik í riðla­keppninni gegn grönnum sínum frá Wa­les á þriðju­daginn í næstu viku.