Knattspyrnuhátíðin í Katar hefur staðið undir væntingum innan vallar en málefnin utan vallar hafa þó sett sinn svip á mótið. England er með verðmætasta leikmannahópinn á mótinu. Þetta kemur fram í samantekt sem CIESstofnunin hefur tekið saman. Allir 26 leikmenn í hverjum hópi eru verðmetnir og það síðan lagt saman.

Jude Bellingham er verðmætasti leikmaður enska landsliðshópsins en verðmæti hans er í dag í kringum 202 milljónir evra samkvæmt CIES. Bellingham er 19 ára gamall og skoraði fyrsta mark Englands á mótinu þegar hann skoraði í sannfærandi sigri á Íran. Enska liðið er komið í 16 liða úrslit mótsins og mætir þar Senegal á sunnudag í áhugaverðu einvígi.

Bellingham er ein skærasta stjarna enska liðsins þrátt fyrir ungan aldur, frammistaða hans með Borussia Dortmund í Þýskalandi hefur vakið mikla athygli og eru öll stærstu félög Evrópu með augastað á honum fyrir næsta sumar þegar Dortmund er tilbúið að selja hann. Vinicius Jr. sem hefur átt frábæran tíma hjá Real Madrid er næstverðmætasti leikmaður mótsins og er metinn á ögn minna en Bellingham. Sóknarmaðurinn frá Brasilíu hefur ekki fundið sinn besta takt í Katar en úrslitastundir nálgast og þar getur hann stigið upp.

Enski hópurinn er ögn verðmætari en hópurinn hjá Brasilíu en bæði lið setja stefnuna á að fara alla leið. Það gerir franska liðið líka en einn besti leikmaður í heimi, Kylian Mbappe, er verðmetinn á 27 milljarða íslenskra króna. Mbappe hefur farið frábærlega af stað í mótinu og er til alls líklegur þegar líða tekur á mótið. Næstu stjörnur fótboltans, Pedri hjá Spáni og Jamal Musiala hjá Þýskalandi, hafa vakið verðskuldaða athygli á mótinu og eru verðmætustu leikmennirnir hjá sínum þjóðum.