Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra segir vinnu við undirbúning nýrrar þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir vera á fullu skriði. Hún bindur vonir við að hún rísi á þessu kjörtímabili og segir aðra þingmenn ekki þurfa að efast um vilja ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, oddviti og þingmaður Viðreisnar beindi fyrirspurn sinni um stöðu mála hvað varðar nýja þjóðarhöll til forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun.

Hún segir formenn stjórnarflokkanna tala mjög óljóst þegar kemur að byggingu nýrrar þjóðarhallar og kallaði eftir skýrum svörum. Ríkisstjórnin skuldaði öllum hreinskilið svar.

Ég bind enn vonir við að því
verði lokið á þessu kjörtímabili

-Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

„Síðastliðna helgi var hæstvirtur innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni og þar var alveg ljóst að verið var að slá nýrri þjóðarhöll á frest. Ekki alveg slátra henni en slá henni á frest," sagði Þorgerður Katrín í ræðustól.

„Síðan kemur hæstvirtur fjármálaráðherra og segir að það sé nóg af fjárfestingum til, nóg af fjármunum til en er samt frekar óljós. Þarna eru tveir formenn stjórnarflokka sem eru að tala mjög óljóst í þessu mikla hagsmunamáli fyrir íþróttahreyfinguna."

Þess vegna vilji Þorgerður spyrja forsætisráðherra hver staðan sé á þróun mála. „Íþróttahreyfingin, svo ég vitni nú í Hannes S. Jónsson, formann KKÍ í fréttum á Stöð 2 í gær, telur að það verði nú og ég vitna í hann og tek undir hans orð: 'Það verði nú að sýna íþróttahreyfingunni að minnsta kosti þá virðingu að standa einhvern tímann við eitthvað af því sem lofað er.'

Við erum búin að sjá margar myndatökur af undirskriftum varðandi þjóðarhöllina. Ég tek undir þessa vinsamlegu og hófsömu ábendingu forsvarsfólks íþróttahreyfingarinnar. Ég bið ríkisstjórnina um að tala skýrt. Mun þjóðarhöllin rísa á þessu kjörtímabili? Það skuldið okkur hreinskilið svar," sagði Þorgerður Katrín og beindi spurningu sinni til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra.

Fulltrúar ríkis og Reykjavíkurborgar undirrita viljayfirlýsingu í maí síðastliðnum
©Torg ehf / Valgardur Gislason

Vinnan sé á fullu skriði

Frá því að viljayfirlýsingin um nýja þjóðarhöll var undirrituð þann 6. maí síðastliðinn hefur starfshópur verið skipaður þar sem sitja fulltrúar þriggja ráðuneyta og Reykjavíkurborgar. Þessi hópur á að samþætta vinnu framkvæmdarnefndar og ráðgjafaráðs. Framkvæmdarnefndin um uppbyggingu þjóðarleikvangs fyrir innanhúsíþróttir hefur verið stofnuð og verkefnisstjóri verið ráðinn. Þessi nefnd á að útbúa tímasetta framkvæmdaráætlun vegna þjóðarhallarinnar.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra viðurkenndi að henni væri ekki nákvæmlega ljóst um fundarplön hópsins. „Mér er sagt að hann sé að funda. Hafi fulltrúar íþróttahreyfingarinnar ekki verið kallaðir til hlýtur það að standa til því hópurinn ku vera farinn af stað í sinnu vinnu og farinn að funda reglulega vegna þess að á næstu mánuðum á að vinna alla þá nauðsynlegu undirbúningsvinnu sem þarf svo við getum lagt af stað í þetta mannvirki."

Forsætisráðherra er sammála Þorgerði Katrínu um að mannvirkið sé löngu tímabært. „Það verður lagt af stað í þetta verkefni á þessu kjörtímabili og ég bind enn vonir við að því verði lokið á þessu kjörtímabili."

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Biður ríkisstjórnina um að sýna forystu

Þorgerður Katrín segist efast um að forsætisráðherra sem og hæstvirtur mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason sem er með mál íþróttahreyfingarinnar á sinni könnu, vilji vera með á myndamómentinu þegar að landslið Íslands í innanhúsíþróttum leika sína heimaleiki utan landsteinanna. „Hjá okkar gömlu herraþjóðum Dönum eða Norðmönnum. Þar held ég að þau vilji nú ekki vera."

Henni finnst að ríkisstjórnin þurfi að sýna þann manndóm í sér að tala skýrt. „Ekki segja binda vonir við heldur við ætlum að klára þetta verkefni á kjörtímabilinu. Eða var tilgangurinn með viljayfirlýsingunni sem var skrifað undir kannski bara sá að láta plaggið lifa rétt fram yfir kosningar. Sýnið forystu, talið afdráttarlaust og segið við íþróttahreyfinguna: 'Já, við ætlum að klára þjóðarhöllina 2025, á þessu kjörtímabili.' Í guðana bænum setjið ekki alla ábyrgð yfir á næstu ríkisstjórn."

Laugardalshöll stenst ekki lengur kröfur sem gerðar eru til keppnisstaða landsliða í hand- og körfubolta

Þingmaðurinn þarf ekki að efast

Katrín sá sig þá tilneydda til að endurtaka fyrri orð sín. „Vinnan er farin af stað. Það er búið að setja alla nauðsynlega vinnu af stað svo hægt sé að ljúka nauðsynlegum undirbúningi fyrir þetta mannvirki. Það er verið að vinna að þessu sameiginlega með Reykjavíkurborg.

Háttvirtur þingmaður þarf ekkert að efast. Verkefnið er á fullu skriði samkvæmt þeim áætlunum sem hafa verið settar fram. Háttvirtur þingmaður þarf ekkert að hafa áhyggjur af skýrum vilja ríkisstjórnarinnar í þessum efnum."