Samkvæmt heimildum DV mun brotthvarf Eiðs tengjast gleðskap á vegum Knattspyrnusambands Íslands sem sambandið bauð til eftir leik íslenska karlalandsliðsins gegn Norður-Makedóníu er liðið lauk keppni í undankeppni Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu fyrr í mánuðinum.

Samkomulag um starfslok mín voru tekin með hagsmuni mína, landsliðsins og KSÍ að leiðarljósi. Ég vil þakka öllum innan sambandsins fyrir frábært samstarf undanfarið ár. Síðasta ár hefur verið mjög krefjandi bæði innan vallar sem og utan bæði fyrir mig persónulega sem og sambandið. Áfram Ísland!“ segir Eiður Smári í tilkynningu sem barst frá Knattspyrnusambandi Íslands.

Þetta er í annað skiptið á innan við ári sem rekja má brotthvarf landsliðsþjálfara til gleðskapar sem er haldið á vegum Knattspyrnusambands Íslands.

Þann 7. desember á síðasta ári var tilkynnt um starfslok Jóns Þórs Haukssonar, þáverandi landsliðsþjálfara íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu. Íslenska liðið hafði tryggt sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem fer fram á næsta ári með 1-0 sigri á Ungverjum og ákveðið var að blása til veislu.

,,Eftir sigurinn á Ungverjalandi var EM-sætinu fagnað af liðinu, starfsmönnum og fulltrúum KSÍ. Við þetta tilefni var boðið upp á áfengi. Ég hef alltaf lagt áherslu á að koma hreint og beint fram við þá leikmenn sem ég hef þjálfað, að hrósa og gagnrýna með það að markmiði að hjálpa þeim að gera enn betur og styrkja þannig liðið. Slík samtöl eiga hins vegar ekki heima í fögnuði sem þessum og alls ekki undir áhrifum áfengis. Þarna brást ég sem þjálfari liðsins og hefði ekki átt að ræða frammistöðu og þjálfun einstakra leikmanna undir þessum kringumstæðum. Það voru mistök sem ég tek fulla ábyrgð á og hef beðið liðið og einstaka leikmenn afsökunar," sagði Jón Þór Hauksson í yfirlýsingu sem Knattspyrnusamband Íslands birti í tengslum við starfslok hans.