Enska knatt­spyrnu­sam­bandið heldur því fram að enska lands­liðið sé skot­mark dómara á HM í knatt­spyrnu sem fer þessa dagana fram í Katar. Sam­bandið ætlar að fara með málið fyrir FIFA og segja ó­stöðug­leika í dóm­gæslunni á HM.

Málið snýr að bar­áttu varnar- og sóknar­manna innan teigs þegar kemur að fram­kvæmd fastra leik­at­riða, The Times greinir frá.

Eng­lendingar unnu á dögunum 6-2 sigur á Íran í fyrsta leik sínum á HM og í leiknum kom upp vafa­at­riði í tengslum við fast leik­at­riði Eng­lands þar sem varnar­maður tók utan um Harry Maguire með þeim af­leiðingum að hann féll niður til jarðar innan víta­teigs en víta­spyrna var ekki dæmd.

Sam­bæri­legt at­vik kom upp síðar í leiknum en þar snerist dæmið við, Íran var í sókn og Eng­land að verjast. Í því til­viki var dæmd víta­spyrna eftir að John Stones virtist rífa í treyja sóknar­manns Íran.

Í leik Argentínu og Sádi-Arabíu í gær var síðan dæmd víta­spyrna þegar að tekið var utan um sóknar­mann Argentínu með þeim af­leiðingum að hann féll niður til jarðar.

Eng­lendingar vilja fá fram­kvæmd þessara reglna á hreint og segir The Times frá því að liðið telji sig vera skot­mark dómara.