Þýskaland og England mætast í úrslitaleik á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu á Wembley í London á sunnudaginn. Þýskaland hafði betur gegn Frakklandi í æsispennandi undanúrslitaleik á Stadium MK Milton Keynes á Englandi fyrr í kvöld. Staðan var 1-1 í hálfleik en þýski fyrirliðinn Alexandra Popp skoraði sigurmarkið á 75 mínútu og tryggði Þjóðverjum sæti í úrslitum.
Alexandra hefur átt stórleik í mótinu og hefur skorað sex mörk, jafn mörg og hin enska Beth Mead. Þær munu því bæði keppa um Evróputitilinn og Gullskóinn sem veittur er þeirri konu sem skorar flest mörk í mótinu.
Úrslitaleikur Englands og Þýskalands fer fram á Wembley klukkan fjögur á sunnudaginn.