England er Evrópumeistari eftir sigur á Þýskalandi á Wembley um dag. Leikurinn fór alla leið í framlengingu.

Þýska liðið varð fyrir áfalli rétt fyrir leik. Alexandra Popp, fyrirliði og markahæsti leikmaður liðsins á mótinu, meiddist í upphitun og gat ekki tekið þátt. Popp hafði skorað sex mörk á mótinu.

Enska liðið var ívið sterkara í fyrri hálfleik og var líklegri aðilinn til að skora í lengst af. Þjóðverjar fengu þó besta færi fyrri hálfleiksins um miðbik hans eftir klafs inni á teig Englands.

Markalaust var þegar flautað var til hálfleiks.

Seinni hálfleikur fór rólega af stað, en eftir klukkutíma leik átti Keira Walsh stórkostlega sendingu inn fyrir vörn Þjóðverja. Varamaðurinn Ella Toone tók á rás og afgreiddi boltann frábærlega í markið. 1-0.

Þýskaland tók við sér þegar leið á hálfleikinn og þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma skoraði Lina Magull af stuttu færi eftir frábæra sókn.

Meira var ekki skorað í venjulegum leiktíma og því var framlengt. Þar gerðist lítið markvert framan af. En á 110. mínútu fékk England hornspyrnu. Upp frá henni tókst Chloe Kelly, öðrum varamanni enska liðsins, að pota boltanum í markið.

Lokatölur 2-1. Þetta er í fyrsta sinn sem England vinnur stórmót. Yfir 87 þúsund manns voru á Wembley í dag, sem er met á Evrópumóti.

Sarina Wiegman, þjálfari enska liðsins, er að vinna sitt annað Evrópumót í röð. Hún var þjálfari Hollands, sem vann EM 2017.