Makar landsliðsmanna Dana í knattspyrnu munu ekki fá leyfi til þess að ferðast með liðinu á HM í Katar í næsta mánuði. Þetta kemur fram í frétt Ekstra Bladet undir fyrirsögninni: „Engir kossar og ekkert kynlíf fyrir HM-drengina."

Danska landsliðið hefur farið með himinskautum undanfarið og tryggði sér nokkuð örugglega sæti á HM í Katar eftir níu sigra í þeim tíu leikjum sem liðið spilaði í undankeppninni.

Skjáskot af frétt Ekstra Bladet
Mynd: Skjáskot af Ekstra Bladet

Danska knattspyrnusambandið hefur hins vegar tekið ákvörðun um að bregða út af vananum frá því sem þekkist af fyrri heimsmeistaramótum því að makar leikmannanna fá ekki að koma með á HM.

Sambandið tekur þessa ákvörðun með þeim rökum að það vilji ekki stuðla að meiri efnahagslegum ágóða fyrir stjórnvöldin í Katar því muni verði skrúfað niður í eyðslu í landinu þar sem það er hægt.

Margir eru mjög ósáttir við að Heimsmeistaramótið í knattspyrnu, stærsta knattspyrnumóti í heimi sé spilað í landi á borð við Katar sem hefur slæmt orðspor hvað almenn mannréttindi varðar.

Yfirleitt hafa makar fengið að ferðast með liðinu og hitta leikmenn einstaka sinnum á meðan á mótinu stendur en nú er ljóst að leikmenn munu vera lengi frá fjölskyldum sínum.

Danska landsliðið heldur út til Katar þann 15. nóvember næstkomandi og leikur sinn fyrsta leik í riðlakeppninni þann 22. nóvember gegn Túnis. Seinna taka við leikir gegn Frakklandi og Ástralíu.

Ef Danir komast áfram úr riðlakeppninni tekur útsláttarkeppni við, úrslitaleikurinn sjálfur mun síðan fara fram þann 18. desember á Lusail leikvanginum.