Allir leikmenn sem eru í hópnum hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu fengu neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku vegna kórónaveirunnar sem framkvæmd var seint í gærkvöldi.

Þetta kemur fram í færslu á twitter-síðu knattspyrnusambands Íslands, KSÍ. Þar með er endanlega ljóst að leikur Íslands og Belgíu í Þjóðadeildinni fer fram á Laugardalsvellinum í kvöld.

Eins og fram hefur komið er allt starfslið íslenska liðsins í sóttkví eins og sakir standa vegna smits Þorgríms Þráinssonar, starfsmanns KSÍ.

Erik Hamrén og Freyr Alexandersson, þjálfarar íslenska liðsins, munu horfa á leikinn úr glerbúri fyrir ofan stúkuna á Laugardalsvellinum og líklega vera í samskiptum við Arnar Þór Viðarsson og Davíð Snorra Jónasson sem munu stýra liðinu af hliðarlínunni.