Ríkjandi heimsmeistarar Dana eru taldir líklegir til afreka á mótinu en samkvæmt Mensah var ekkert heimsklassa yfir ferðamáta danska landsliðsins til Ungverjalands.

Þó nokkur þátttökulið á Evrópumóinu hafa verið að glíma við Covid-19 smit innan herbúða sinna í aðdraganda mótsins og danska landsliðið er þar ekki undanskilið.

Því vakti það furðu hjá mörgum þegar ákvörðun var tekin um að danska landsliðið myndi fljúga á almennu farrými í áætlunarflugi til Ungverjalands fremur en að ferðast með einkaflugvél. Seinni leiðin hefði minnkað líkur á nýjum Covid-19 smitum þar sem að liðið hefði verið í minni nálægð við einstaklinga utan hópsins.

Danska landsliðið flaug frá Kaupmannahöfn, millilenti í Amsterdam í Hollandi, áður en stefnan var síðan tekin á Ungverjaland. ,,Mér finnst þetta skrýtið en þetta er bara staðan. Ég hef hins vegar ekki áhyggjur af þessu," sagði Mads Mensah, leikmaður Danmerkur í viðtali við Sport TV2.

Hann segist að sjálfsögðu hafa viljað fljúga með beinu einkaflugi á mótstað. ,,Að sjálfsögðu. Það er enginn vafi á því í mínum huga að það þarf ekki mikið að gerast til þess að hlutirnir taki stefnu í ranga átt. Það er engin spurning í mínum huga að það hefði verið ákjósanlegra fyrir okkur að fara með einkaflugi."

Sænska handknattleikssambandið fór allt aðra leið en það danska. Sænska landsliðið flaug í einkaflugi til Slóvakíu þar sem liðið mun leika sína leiki í riðlakeppni Evrópumótsins.

Sænska landsliðið hefur verið að glíma við Covid-19 smit í aðdraganda Evrópumótsins og því var þetta talin vera öruggasta leiðin fyrir liðið að ferðast á mótið.