„Það er alls ekkert til þess að skammast sín fyrir að vera utan leikmannahóps hjá jafn sterku liði og Bayern München. Sérstaklega í ljósi þess að ég er nýstiginn upp úr meiðslum," segir Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sem var spurð út í stöðu sína hjá þýska liðinu á blaðamannafundi fyrir leik Íslands og Kýpur í undankeppni HM 2023 sem fram fer á Laugardalsvelli annað kvöld

„Ég hef verið í hóp í öllum leikjum tímabilsins fyrir síðasta leik og þar var ég að víkja fyrir þýskri landsliðkonu sem var að koma til baka eftir meiðsli. Ég vissi það vel þegar ég kom til Bayern München að ég þyrfti að vera þolinmóð. Mitt markmið er bara að gera mitt besta á æfingum og grípa þau tækifæri sem gefast. Nú er ég hins vegar með hugann við landsliðið," segir sóknartengiliðurinn.

Athygli vakti að faðir Karólínu Leu velti upp þeirri spurningu á twitter-síðu sinni á dögunum hvort betra væri að lítill fiskur í stórri tjörn Bæjara eða stór fiskur í lítilli tjörn í liði sem spilar í lakari deild.

„Pabbi er flottur á twitter og það er bara jákvætt að hann viðri skoðanir sínar þar. Það eru allir sáttir eftir þessa færslu og ég er sammála honum í því að það sé betra fyrir minn feril að vera í leikmannahópi Bayern München og kynnast því mótlæti að þufra að vinna sér sæti í gríðarlega sterku liði," segir Karólína Lea sem var í byrjunarliði Íslands þegar liðið vann góðan sigur gegn Tékklandi í síðustu umferð undankeppninnar.

„Það er sömuleiðis mikil samkeppni hérna í landsliðinu og ég þarf að berjast fyrir sæti mínu hérna líka sem er bara jákvætt. Það er frábært að við séum komnar með það breiðan hóp að það sé hörð samkeppni um sæti í byrjunarliðinu.

Ég var ánægð með að fá sæti í liðinu í síðasta leik og svo bíðum við bara og sjáum hvort ég haldi sætinu í leiknum annað kvöld. Ég hef allavega mikla trú á mér og finnst ég gert sterkt tilkall til að byrja.

Ef ég byrja á bekknum þá bara kyngi ég því, við erum öll í þessu saman. Þó svo að það sé mikið keppnisskap í leikmannahópnum og leikmenn vilji fá mínútur þá er engin fýla hjá þeim byrja ekki. Það er góð stemming í liðinu," segir hún.