„Í hreinskilni hefur maður oft verið betri eftir að hafa séð Martin meiðast í gær. Þetta voru meiðsli sem enginn þjálfari vill sjá,“ segir Craig Pedersen, þjálfari karlalandsliðs Íslands í körfubolta, aðspurður út í meiðsli Martins Hermannssonar í gær.

„Þetta er auðvitað engin óskastaða. Hann er besti leikmaðurinn okkar og er að spila á hæsta stigi körfuboltans í Evrópu en við höfum verið í þessari stöðu áður. Í leiknum gegn Ítölum ytra lékum við án hans og lékum bara nokkuð vel þrátt fyrir tap.“

Martin fór meiddur af velli í leik Valencia í leik liðsins í átta liða úrslitum í úrslitakeppni efstu deildar á Spáni í gær. Í morgun staðfesti Vesturbæingurinn að hann hefði slitið krossbönd og er því langt endurhæfingarferli framundan.

„Ég veit hvað þetta er honum erfitt, að missa af næstu verkefnum landsliðsins. Martin hefur alltaf verið spenntur fyrir landsliðið og ég man eftir því þegar við mættum Belgum í leik sem skipti ekki máli og Martin krafðist þess að vera með. Hann hreif landsliðsþjálfara Belga með þessu viðhorfi.“

Craig tók undir að þótt að það væri veruleg eftirsjá á eftir Martini væri Ísland vel skipað í bakvarðarstöðunni með Elvar Friðriksson og Jón Axel Guðmundsson og fleiri til.

„Við vorum spenntir að hafa fullskipað lið í fyrsta sinn í langan tíma en það verða aðrir að stíga upp í hans fjarveru. Við erum að fá Hörð Axel aftur inn sem gefur okkur aðra möguleika á báðum endum vallarins, Ægir hefur verið frábær síðustu ár með landsliðinu og Kári og Sigtryggur Ari hafa spilað vel undanfarna mánuði.“

Eftir að FIBA úrskurðaði Rússa úr leik í undankeppni HM 2023 er Ísland í dauðafæri á að gera atlögu að sæti á HM í fyrsta sinn. Með sigri á Hollendingum í júlí færi Ísland áfram í sex liða milliriðil með stig í pokahorninu þar sem þrjú efstu liðin komast á HM.

Landsliðsþjálfarinn sagðist huga að einum leik í einu, aðspurður hvort að meiðsli Martins gerðu út um möguleika Íslands í milliriðlinum þar sem Georgía, Spánn og Úkraína eða Norður-Makedónía bætast við flóruna.

„Við þurfum að taka einn leik í einu. Ef við vinnum Hollendinga komum við okkur í góða stöðu fyrir næsta stig undankeppninnar og þá sjáum við til hvað gerist úr því. Um leið skiptir hvert stig máli fyrir forkeppni EuroBasket 2025 þannig það er engan bilbug að finna á okkur.“