Engin ný Covid-19 smit hafa greinst í landsliðshópi íslenska karlalandsliðsins í handbolta. RÚV greindi frá en um er að ræða niðurstöður úr PCR-prófi liðsins sem var tekið í gærkvöldi eftir landsleikinn við Króatíu.

Liðið mun fara aftur í PCR-próf í hádeginu, þá mun skýrast hvort einhver ný smit hafi gert vart um sig en einnig verður áhugavert að sjá hvort einhverjir af þeim leikmönnum sem eru fjarverandi með Covid-19 fái að snúa aftur úr einangrun.

Alls hafa tíu leikmenn Íslands smitast á mótinu og þá hefur sjúkraþjálfari liðsins einnig greinst með Covid-19.

Ísland leikur sinn síðasta leik í milliriðlum Evrópumótsins gegn Svartfjallalandi á morgun í leik sem verður að vinnast ef liðið ætlar að eiga möguleika á sæti í undanúrslitum. Ef Íslendingar klára sitt verðum við að vonast til þess að Danmörk hafi betur gegn Frakklandi.