Alfons Sampsted, bakvörður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og leikmaður Noregsmeistara Bodo/Glimt, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag fyrir leik Íslands og Suður-Kóreu á morgun.

Alfons var á fundinum spurður út í tíma sinn hjá Bodo/Glimt í Noregi, liðið varði titil sinn í norsku úrvalsdeildinni á nýafstöðnu tímabili. Alfons segir það hafa verið frábæra tilfinningu að verja titilinn.

,,Það var náttúrulega frábært hjá okkur að geta klárað þetta tvö ár í röð. Þetta var sterk frammistaða hjá liðinu að geta gert þetta eftir að við höfðum misst marga leikmenn frá okkur fyrir tímabilið. Að sumu leyti var þetta allt öðruvísi frá því árið áður, liðin voru jafnari og við spiluðum fleiri leiki en tímabilið áður og þar af leiðandi var meira álag á liðinu."

Alfons er kominn á síðasta ár samnings síns hjá Bodo/Glimt, hann býst við því að setjast niður með forráðamönnum félagsins eftir landsleikjahléið og ræða framtíð sína.

,,Það er engin leynd yfir því að ég á í viðræðum við Bodo/Glimt um framlengingu á mínum samningi. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar í þessum málum, ég hef bara verið í jólafríi en við ætlum að skoða þessi mál þegar að ég sný aftur til félagsins," sagði Alfons Sampsted, leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu sem og norska meistaraliðsins Bodo/Glimt.