„Ég get ekkert staðfest um einstök mál," sagði Ævar Pálmi Pálmason yfir­maður kyn­ferðis­brotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Fréttablaðið.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Aron Einar Gunnarsson, landsliðfyrirliði Íslands, sé annar af þeim sem sakaður er um aðild í málinu. Hinn er knattspyrnumaður sem á að baki leiki fyrir Íslands hönd.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er stefnt að því að yfirheyra mennina hér á landi í nóvember. Aron Einar er búsettur í Katar þar sem hann leikur með Al-Arabi. Hann þarf því að koma til landsins til að ræða við lögregluna.

Aron Einar var ekki valinn í landsliðshóp Íslands á dögunum vegna málsins, hann sendi frá sér yfirlýsingu og hafnar allri sök í málinu. „Á samfélagsmiðlum hefur verið til umræðu atburður sem sagt er að hafi átt sér stað í Kaupmannahöfn 2010. Ég hef ekki fengið tækifæri til að ræða málið formlega við KSÍ, eða verið gefinn kostur á standa á rétti mínum gagnvart ávirðingunum, og því sárnar mér þessi fyrirvaralausa ákvörðun um að verða settur út úr liðinu. Í ofanálag hefur lögregla aldrei haft samband við mig vegna nokkurs máls. Ég hef engar tilkynningar fengið um að ég hafi á einhverjum tímapunkti verið undir grun og aldrei verið boðaður í yfirheyrslu," skrifaði Aron Einar í yfirlýsingu

„Um leið og ég hafna öllu ofbeldi þá lýsi ég því yfir að ég hef aldrei gerst brotlegur gagnvart neinum eða neinni. Ég ætla mér ekki að vera meðvirkur gagnvart dómstól götunnar varðandi atvik sem á að hafa átt sér stað fyrir ellefu árum síðan. Hafi einhver eitthvað út á mig að setja þá bið ég viðkomandi vinsamlegast að hlífa mér ekki, ásaka mig frekar og nafngreina og gefa mér kost á að verja mig. Það er heiðarlegt," sagði Aron Einar á dögunum.