Ekkert félag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla hefur lagt fram formlega beiðni um það að gera hlé á keppni í deildinni vegna vaxandi fjölda kórónaveirusmita á Bretlandseyjum undanfarið. Bresk stjórnvöld eru sömuleiðis ekki með það á döfinni að banna íþróttaviðburði í landinu á næstunni hið minnsta.

Nýtt afbrigði kórónaveirunnar greindist nýverið í Bretlandi og smitum hefur fjölgað þar í landi síðustu daga. Í síðustu prófunum leikmanna og forráðamanna í ensku úrvalsdeildinni greindust 18 smit.

Leik Everton og Manchester City sem fram átti að fara á mánudagskvöldið var frestað vegna smita í herbúðum Manchester City. Þá er mögulegt að leik Tottenham Hotspur og Fulham sem er á dagskrá í kvöld verði frestað vegna smita hjá Fulham.

Umræða hefur verið um hvort gera eigi tveggja vikna hlé á deildinni á meðan freistað er þess að ná tökum á faraldrinum. Þannig viðraði Sam Allardyce, knattspyrnustjóri WBA, þá skoðun sína í gærkvöldi að það væri heillavænlegt.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, er hins vegar á öndverðu meiði og sér ekki tilganginn í þeirri frestun.

Forráðamenn félaganna í ensku úrvalsdeildinni munu hittast í janúar næstkomandi og ræða mál tengd faraldrinum en 14 félög þurfa að samþykkja tillögu um frestun til þess að hún komist til framkvæmdar.