Cristiano Ronaldo var í dag kærður af evrópska knattspyrnusambandinu fyrir ósæmilega hegðun þegar hann greip um hreðjar sínar við að fagna einu af mörkum sínum í 3-0 sigri Juventus á Atletico Madrid á dögunum.

Ronaldo skoraði öll þrjú mörkin þegar Juventus komst óvænt áfram eftir að hafa tapað fyrri leik liðanna á Spáni 2-0 tveimur vikum áður.

Ronaldo greip um hreðjarnar eftir þriðja markið og var með því að líkja eftir fagni Diego Simeone, knattspyrnustjóra Atletico, sem greip um hreðjarnar þegar hann fagnaði öðru marki Atletico í fyrri leiknum.

Simeone var sektaður fyrir atvikið en slapp við leikbann og má búast við því að Ronaldo fái sambærilega sekt.

Atvikið verður tekið fyrir á fimmtudaginn en verði Ronaldo dæmdur í leikbann mun hann missa af leikjum Juventus gegn Ajax í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.