Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ræddi við fjölmiðla í dag vegna leiks liðsins gegn RB Leipzig í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu sem fram fer í Búdapest í Ungverjalandi annað kvöld.

Klopp sagði þar að það þyrfti enginn að hafa áhyggjur af sér þrátt fyrir erfiðleika í persónulega lífinu og inni á knattspyrnuvellinum undanfarnar vikur.

Þessi 53 ára gamli Þjóðverji missti móður sína sem var 81 árs gömul þegar hún lést á dögunum og þá hefur Liverpool beðið lægri hlut í síðustu þremur deildarleikjum sínum.

„Ég vil helst ekki ræða persónuleg málefni á blaðamannafundum sem þessum og ég hef náð að temja mér það á 30 ára ferli mínum sem knattspyrnustjóri að ná að aðskilja einkalífið og vinnuna," sagði Klopp meðal annars á blaðamannafundinum í dag.

„Það hlýjar mér hins vegar um hjartarætur að finna fyrir þeim stuðningi sem ég hef fengið á erfiðum tímum en við tæklum vandamálin í fjölskyldunni á öðrum stað en í fjölmiðlum. Það þarf enginn að hafa áhyggjur af mér, ég er illa sofinn en á sama tíma fullur af orku og vilja til þess að snúa slæmu gengi liðsins við," sagði Þjóðverjinn enn fremur.

Liverpool er eins og sakir standa 13 stigum á eftir Manchester City sem trónir á toppi deildarinnar og Klopp lýsti því yfir eftir tapleikinn gegn Leicester City um nýliðna helgi að hann teldi að útséð væri að liði hans myndi ekki takast að verja titil sinn.

Þrátt fyrir það hefur Klopp, sem hefur til að mynda stýrt Liverpool til sigurs í Meistaradeild Evrópu og gert liðið að enskum meistara á rúmlega fimm ára stjórnartíð sinni, ekki áhyggjur af framtíð sinni.

„Svo ég viti til er ég ekki á leiðinni í burt frá Liverpool, ég er hvorki að hætta né hef ég fundið fyrir merki þess að stjórnin ætli að segja mér upp störfum. Við erum allur hópurinn staðráðnir í að ná í jákvæð úrslit í næstu leikjum og einbeitingin er á leiknum gegn RB Leipzig," segir hann um framhaldið en Klopp er samningsbundinn Liverpool til ársins 2024

Stuðningsmenn Liverpool sýndu Klopp stuðning í verki fyrir utan Anfiled um nýliðna helgi.
Fréttablaðið/Getty