Christian Eriksen, leikmaður danska landsliðsins, hneig niður skömmu fyrir hálfleik í leik Dana við Finna í Evrópukeppninni í knattspyrnu en Eriksen var við það að taka við bolta frá samherja sínum þegar hann féll í jörðuna.

Sjúkraliðar voru strax kallaðir að vellinum þar sem endurlífgunartilraunir fóru fram en liðsfélagar Eriksen hópuðust í kringum hann til að veita sjúkraliðum næði. Leikmenn Finna fóru beint inn í búningsklefa, sjáanlega í áfalli líkt og allir á vellinum.

Eriksen var að lokum fluttur af vellinum á sjúkrabörum og verður fluttur á spítala en áhorfendur klöppuðu fyrir Eriksen þegar hann var fluttur af velli. Leiknum hefur nú verið aflýst og hlé verið gert á útsendingu EM á Stöð 2 Sport hér á landi.

Uppfært 17:09:

Að því er kemur fram í frétt DR um málið hefur áhorfendum verið gert að sitja áfram í sætum sínum þar til frekari upplýsingar berast.

Uppfært 17:25

Ekkert hefur enn verið gefið út um líðan Eriksen en af myndum að dæma virtist Eriksen vera með meðvitund þegar hann var fluttur af velli.

Af myndum að dæma virtist Eriksen vera með meðvitund þegar hann var fluttur af vellinum.
Fréttablaðið/AFP
Kasper Schmeichel, markvörður Dana, sást hugga Sabrine Kvist Jensen, konu Erikssen, á vellinum.
Fréttablaðið/AFP
Leikmenn Dana reyndu að veita sjúkraliðum næði.
Fréttablaðið/AFP