Það var í febrúar á þessu ári sem Tiger slasaðist alvarlega í bílveltu árla morguns í Los Angeles. Lögreglan í Los Angeles staðfesti að slökkviliðsmenn hefðu neyðst til að klippa Tiger úr bílnum eftir veltuna.

Tiger var mættur á golfmót hjá syni sínum sem er ansi liðtækur kylfingu. Charlie keppir á unglingamótum víða um Bandaríkin þessar vikurnar

Tiger er einn besti kylfingur allra tíma og einn af bestu íþróttamönnum heims undanfarna áratugi. Hann á stóran þátt í vinsældum golfíþróttarinnar eftir að hafa einokað stærstu titlana í íþróttinni á fimmtán ára tímabili.

Undanfarin ár hafa reynst Tiger erfiðari þar sem bakmeiðsli settu strik í reikninginn. Hann virtist vera búinn að ná sér af þeim og vann þrjú mót, þar á meðal eitt risamót á Masters árið 2019. Meiðsli höfðu verið að hrjá hann þegar hann slasaðist svo í bílveltunni.

Fréttablaðið/ Getty

Tiger fór í fjölda aðgerða eftir slysið og er óvíst hvort honum takist að keppa aftur í íþróttinni sem hann elskar. Myndir helgarinnar gefa þó fólki von í brjósti um að hann geti snúið aftur.