Íslenska U-19 ára landsliðið í knattspyrnu karla tryggði sér sæti í milliriðlum undankeppni EM 2020 með 4-2 sigri gegn Albaníu í dag. Dregið verður í milliriðla keppninnar 3. desember næstkomandi.

Atli Barkarson, Ísak Snær Þorvaldsson, Andri Lucas Guðjohnsen og Karl Friðleifur Gunnarsson skoruðu mörk Íslands í sigrinum í dag en þau komu öll í síðari hálfleikinn. Strákarnir voru 0-2 undir í hálfleik en áttu svo frábæran síðari hálfleik.

Ísland laut í lægra haldi fyrir Belgíu í fyrstu umferð undankeppninnar en vann svo sannfærandi 5-2 sigur á móti Grikklandi í næst leik.

Þar skoraði Kristall Máni Ingason tvö mörk og þeir Orri Hrafn Kjartansson, Valgeir Valgeirsson og Ísak Bergmann Jóhannesson sitt markið hver.