Áttundi launahæsti leikmaður NBA-deildarinnar í körfubolta, Blake Griffin, fær þessa dagana greitt án þess að gera handtak fyrir lið sitt. Hann fær hálfa milljón dollara fyrir hvern leik sem hann fylgist með á hliðarlínunni á meðan félag hans, Detroit Pistons, reynir að finna honum nýtt lið.

Spilamennska Griffin hefur dalað undanfarin ár og er hann ekki lengur sami stjörnuleikmaður og sá sem skrifaði undir risasamning hjá Los Angeles Clippers. Tæp þrjú ár eru frá skiptum hans til Detroit og er rúmt ár eftir af samningi Griffin, sem borgar honum tæplega fjörutíu milljónir dollara á ári.

Detroit hefur rúman mánuð til að finna Griffin nýtt heimili og fer ekki leynt með ástæðurnar fyrir því að hann sé á hliðarlínunni. Griffin hefur glímt við talsverð meiðsli undanfarin ár og vill Detroit ekki eiga á hættu að hann meiðist á ný. Meðan á því stendur fær hann um 500 þúsund dollara á leik sem hann fylgist með á hliðarlínunni, eða 64,4 milljónir íslenskra króna.