Emilía Rós Ómars­dóttir, fyrrum skauta­kona Skauta­sam­bands Akur­eyrar sem árið 2018 upp­lýsti um á­reitni af hálfu þá­verandi skauta­þjálfara síns hjá sam­bandinu, segir fram­kvæmdar­stjóra ÍSÍ, Andra Stefáns­son ekki segja rétt frá í við­tali sem hann veitti RÚV á dögunum um málið.

Andri Stefáns­son, fram­kvæmda­stjóri ÍSÍ segir full­trúa sam­bandsins á sínum tíma hafa fundað með Emilíu um málið. Í sam­tali við RÚV segir hann það ekki hafa verið rætt innan sam­bandsins að biðja Emilíu Rós Ó­mars­dóttur af­sökunar eftir að á­sakanir hennar árið 2018 um á­reiti af hálfu þá­verandi skauta­þjálfara hennar hjá Skauta­sam­bandi Akur­eyrar voru virtar að vettugi.

Emilía fékk um miðjan ágúst loksins af­sökunar­beiðni frá Í­þrótta­banda­lagi Akur­eyrar og Skauta­fé­lags Akur­eyrar, fjórum árum að þau höfnuðu á­sökunum hennar þess efnis að þá­verandi þjálfari hennar á vegum skauta­fé­lagsins hefði á­reitt hana.

Það er ekki hægt að ætlast til að undir­fé­lög þeirra og sam­bönd axli á­byrgð og taki vel á svona málum ef ÍSÍ gerir það ekki sjálft.

Emilía segir að þó svo að málinu sé lokið af sinni hálfu vilji hún að nokkrir hlutir komi fram eftir að hafa lesið við­brögð Í­þrótta­sam­bands Ís­lands (ÍSÍ). Sambandinu hafi verið gert fyrst við­vart um málið í nóvember árið 2018 þegar faðir Emilíu sendi tölvu­póst á þá­verandi fram­kvæmdar­stjóra sam­bandsins Lín­ey Rut Hall­dórs­dóttur.

„Ég er í sam­bandi við Lín­eyu eftir það og fram í janúar 2019. Á þessu tíma­bili hringir hún tvisvar sinnum í mig. Í fyrra sím­talinu þegar Lín­ey spyr mig hvernig þetta mál hefur haft á­hrif á mig svaraði ég að ég gæti ekki æft skauta lengur og að ég þyrði ekki að fara niður í höll, hún svarar að það sé flott hjá mér að forðast skauta­höllina ef mér þætti ó­þægi­legt að fara þangað. Næst segi ég að margir úr fé­laginu tali ekki lengur við mig og heilsi mér ekki ef að ég rekst á þau á keppnum þar sem ég var að horfa á systur mínar keppa og Lín­ey segir mér að vera samt alltaf kurteis við þau. Seinast en ekki síst sagði ég að ég fengi slæma drauma um þjálfarann og aðra aðila úr fé­laginu og Lín­ey gefur mér það ráð að ég ætti að hugsa um eitt­hvað annað áður en ég færi að sofa," skrifar Emilía í færslu á sam­fé­lags­miðlum.

Emilía segir einnig frá því að Lín­ey hafi sagt sér að hún hefði átt hringja í lög­regluna og barna­verndar­nefnd sjálf. „Ég svara að þegar að ég hafi loksins beðið um hjálp hafi ég verið orðin 18 og því hefði barna­verndar­nefnd ekkert geta gert og þá í­trekar hún að ég hafi átt að gera eitt­hvað í þessu fyrr. Eftir seinasta sím­talið frá Lín­eyu sendi ég henni tölvu­póst þar sem ég fór yfir ráð­leggingar hennar og bað hana að stað­festa hvað hefði farið okkar á milli. Hún svaraði þessum tölvu­pósti aldrei og ég heyrði ekki aftur frá henni."

Ekki satt

Andri Stefáns­son, sem er nú fram­kvæmdar­stjóri ÍSÍ segist í sam­tali við RÚV ekki hafa komið að málinu á sínum tíma en að hann viti til þess að kallað var til funda og að full­trúar ÍSÍ hafi setið fundi með Emilíu sem og fleiri aðilum.

Emilía segir þessar full­yrðingar nú­verandi fram­kvæmda­stjóra ÍSÍ ekki vera sannar. „Ég fékk aldrei neinn fund með aðila frá ÍSÍ. Í þessari frétt er líka sagt að ÍSÍ reyndi að koma þeim málum í réttan far­veg með þeim aðilum sem voru næstir málinu, ég veit ekki hvort að ÍSÍ hafi í raun og veru reynt að koma málinu í réttan far­veg en það tókst alla­vega ekki því ég var aldrei boðuð á fund með neinum til að reyna að leysa þetta mál."

Hún segist hafa fengið hluta af sál­fræði­kostnaði greiddan frá ÍSÍ en að­eins eftir að sam­skipta­ráð­gjafi í­þrótta- og æsku­lýðs­mála sagði í skýrslu sinni að það væri það rétta að gera í stöðunni þar sem ekki hafi verið tekið vel á málinu.

„Í greininni segir Andri 'Ef hún hefur metið það þannig að hún var ekki alveg sátt við nálgunina hjá okkur eða þá að­stoð sem hún fékk að þá er það bara mjög leitt'. Ég er ekki sátt með svo­kölluðu að­stoðina sem ég fékk þar sem á mörgum tíma­punktum olli hún mér meiri hugar­angri en ró."

Emilía segir á­stæðuna fyrir því að hún sé að segja frá þessu vera þá að rétt skal vera rétt „og einnig finnst mér ekki rétt að æðsta í­þrótta­vald landsins reyni að af­sala allri á­byrgð gjörða sinna. Það er ekki hægt að ætlast til að undir­fé­lög þeirra og sam­bönd axli á­byrgð og taki vel á svona málum ef ÍSÍ gerir það ekki sjálft. Í­þróttir eiga að vera öruggt og heil­brigt um­hverfi fyrir börn til að þroskast og dafna og til að sjá til þess að ekkert barn hljóti and­legan skaða í í­þróttum þurfum við öll að vera á varð­bergi. For­eldrar, þjálfarar, stjórnar­með­limir fé­laga, í­þrótta­banda­lög og í­þrótta­sam­band Ís­lands. Við berum öll á­byrgð," skrifar Emilía Rós Ómars­dóttir í færslu á sam­fé­lags­miðlum.

Sýndi mikið hugrekki

Emilía streig fram og greindi frá áreitinu árið 2019 í viðtali við Fréttablaðið og sagði frá því hvernig þáverandi þjálfari hennar, sem byrjaði á því að áreita hana, hafi með öllu snúist gegn henni og lagt hana í einelti. Emilía er uppalin á Akureyri en flutti til Reykjavíkur árið 2018 eftir að hafa reynt að sporna við kynferðislegri áreitni þjálfara síns hjá Skautafélagi Akureyrar og viðurkenndi þá að henni finnist erfitt að heimsækja heimabæ sinn. Hún fékk ekki stuðning frá Skautafélagi Akureyrar á sínum tíma.

,,Með faglegri viðbrögðum hefði verið hægt að draga úr sársauka og þjáningu þeirra sem að málinu komu og auðvelda lausn máls," segir í yfirlýsingu ÍBA og SA. „Þrátt fyrir að á þeim tíma er málið kom upp væru ekki til verkferlar sem auðvelt var að styðjast við og fylgja, þá breytir það ekki því að það er alltaf á ábyrgð stjórnarfólks í íþróttahreyfingunni að leysa mál með þeim að hætti að þau valdi sem minnstri vanlíðan þeirra sem misrétti eru beittir."

Segjast samböndin hafa dregið af þessu lærdóm „auk þess sem íþróttahreyfingin öll hefur sett sér betri reglur og verkferla, m.a. með stofnun embættis samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Við heitum því að fylgja þeim leiðbeiningum og þeim línum sem nú hafa verið lagðar í þeim vandasömu málum sem upp geta komið innan íþróttahreyfingarinnar, með það að leiðarljósi að öllum líði sem best og geti stundað sínar íþróttir í öruggu umhverfi."

Byrjaði á saklausan hátt

Í viðtali við Fréttablaðið árið 2019 segir Emilía Rós að þjálfarinn, búlgarskur maður sem kom hingað til lands frá Hollandi hafi komið vel fyrir í fyrstu. Það hafði verið erfitt andrúmsloft í Skautafélagi Akureyrar um tíma og því tóku honum allir fagnandi í fyrstu. Hún lýsti samskiptum sínum við manninn í æfingabúðum sem farið var í Svíþjóð árið 2017.

„Þetta byrjaði á saklausan hátt, hann sendi mér skilaboð á Face­book og byrjaði oft spjallið á því að tala um æfingaprógrammið en svo færði hann sig yfir í að bjóða mér út. Hann byrjaði að hringja í mig líka og fljótlega vatt þetta upp á sig og hann fór að senda mér skilaboð á öllum tíma sólarhringsins. Mér fannst óþægilegt hvernig hann talaði við mig og athugasemdir um líkama minn og fegurð vöktu með mér ótta og óþægindatilfinningu.“