Emilía Rós Ómarsdóttir hefur loksins fengið afsökunarbeiðni frá Íþróttabandalagi Akureyrar og Skautafélags Akureyrar, fjórum árum að þau höfnuðu ásökunum hennar þess efnis að þjálfari á vegum skautafélagsins hefði áreitt hana.

Í samtali við Fréttablaðið segir Emilía afsökunarbeiðnina koma allt of seint en betra sé seint en aldrei.

Emilía steig fram í viðtali við Fréttablaðið árið 2019 og greindi frá því hvernig þáverandi þjálfari hennar hjá Skautafélagi Akureyrar, sem byrjaði á því að áreita hana, hafi með öllu snúist gegn henni og lagt hana í einelti. 

„Ég er allavegana ánægð með að hún hafi á endanum komið,“ segir Emilía í samtali við Fréttablaðið eftir að hafa fengið afsökunarbeiðnina. „Því það er svo mikið af slæmum orðrómum sem mynduðust út frá til dæmis yfirlýsingu sambandanna á sínum tíma.“

ÍBA og SA gáfu frá sér sameiginlega yfirlýsingu á sínum tíma þar sem samböndin sögðu engar sannanir né merki um að þjálfari listskautadeildarinnar hafi brotið siðareglur eða mismunað iðkendum. Nú hafa samböndin séð að sér og sent frá sér afsökunarbeiðni. Fjórum árum seinna.

„Loksins er þetta lengur ekki bara mitt orð gegn einhverju öðru,“ segir Emilía aðspurð um viðbrögð við afsökunarbeiðninni. „Þarna er þetta bara komið og fólk getur hætt að mynda sér einhverja skoðun út frá slúðri sem það hefur heyrt. Auðvitað kemur hún [innsk. blm. afsökunarbeiðnin] allt of seint en ég er samt fegin að þau hafi loksins gefið sig og komið fram með afsökunarbeiðni.“

En hvernig hefur verið að fara í gegnum þessi fjögur ár eftir að samböndin höfnuðu ásökunum hennar?

,,Þetta er búinn að vera hræðilegur tími. Þetta hafði áhrif á mig bæði sem skautara á persónu. Þegar að við systurnar komum til Skautafélags Reykjavíkur var búið að vara félagið við okkur og því ráðlagt að finna leið til þess að banna okkur. Ég var sögð hræðileg, alltaf með vesen og að foreldrar mínir væru ömurlegir.

Fólk var bara hrætt við að fá okkur til sín í félagið vegna sögusagna og síðan þegar að ég gerðist þjálfari var verið að halda þessu gegn mér. Ég ætti ekki að vera þjálfa, var sögð í andlegu ójafnvægi.

Þetta voru sögusagnir sem þessi þjálfari byrjaði að dreifa og var ekki tekið fyrir í upphafi. Ég var orðin mjög stressuð með að hitta og kynnast nýju fólki, var alltaf hrædd um viðbrögðin og hvort það væru einhverjar tengingar norður.“

Nú sé komið að kaflaskilum. „Þetta hefur verið ótrúlega erfitt en nú get ég loksins farið að vinna úr hlutunum. Nú er þessu loksins lokið,“ segir Emilía Rós Ómarsdóttir í samtali við Fréttablaðið.