Emil Pálsson er í viðræðum við Sarpsborg um ráðstöfun á síðasta ári samnings síns við norska félagið eftir að hann þurfti að leggja skóna á hilluna. Norska félagið hefur rætt við Ísfirðinginn um þjálfarastarf.

Þetta kemur fram í viðtali við Emil sem birtist í Sarpsborg Arbeiderblad í dag. Í viðtalinu kemur Emil inn á að honum líði vel þrátt fyrir að hafa tvisvar farið í hjartastopp á stuttum tíma.

Þegar talið berst að framtíðinni segist Emil vera áhugasamur um að vinna í tengslum við fótbolta í framtíðinni og að hann sé í viðræðum við félagið um síðasta ár samningsins.

Það komi meðal annars til greina að starfa fyrir félagið.

„Ég á eitt ár eftir af samningi mínum við Sarpsborg og við erum í viðræðum um það hvað við eigum að gera með framtíðina. Það er allt sem ég get sagt að svo stöddu. Það hefur ekkert verið ákveðið með næstu skref," sagði Emil, aðspurður hvort að hann væri í viðræðum um þjálfarastarf.

Íþróttastjóri félagsins, Thomas Berntsen, tekur í sama streng.

„Við erum í viðræðum við Emil um starf hjá Sarpsborg en það hefur ekkert verið ákveðið. Það er ekki víst að Emil vilji vinna hér þegar fjölskylda hans er á Íslandi.“"