Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að það séu ekki fjármunir til staðar til þess að hann geti styrkt leikmannahópinn nema með því að fá leikmenn á lánssamningum.

Tæpar þrjár vikur eru eftir af félagsskiptaglugganum á Englandi og eru stuðningsmenn Arsenal vongóðir um að félagið styrki leikmannahópinn fyrir komandi átök.

Félagið hefur verið orðað við Denis Suarez, leikmann Barcelona sem lék undir stjórn Emery hjá Sevilla en Emery segir að það sé ekki til peningur á Emirates til að styrkja hópinn.

„Það er ekki peningur til staðar til að kaupa leikmenn. Eini möguleiki okkar er að fá leikmenn á láni og félagið er að skoða möguleikana sem eru til staðar.“