Biðin er á enda. Í dag mun Evrópumótið í handbolta fara af stað. Mótið fer fram í Ungverjalandi og Slóvakíu dagana 13. janúar - 30. janúar og í dag eru á dagskrá hvorki meira né minna en níu leikir.

Í B-riðli okkar Íslendinga munu heimamenn í Ungverjalandi taka á móti Erlingi Richardssyni og lærisveinum hans í hollenska landsliðinu. Ísland hefur síðan leik á mótinu á morgun þegar liðið mætir Portúgal.

Í A-riðli eru á dagskrá tveir leikir í dag. Frændur okkar Danir, sem eru taldir sigurstranglegastir á mótinu mæta vængbrotnum Svartfellingum sem hafa nánast gefið leikinn áður en að hann hefst. Í hinum leik riðilsins mæta Slóvenar liði Norður-Makedóníu sem leikur undir stjórn goðsagnarinnar Kiril Lazarov.

Í C-riðli er um afar áhugaverðan leik að ræða þegar að Króatar taka á móti Ólympíumeisturum Frakka. Í hinum leik riðilsins mæta Serbar liði Úkraínu.

E-riðill býður upp á leik Spánar og Tékklands sem og leik Svía og Bosníu og Herzegovinu. Spánverjar eru taldir líklegir til afreka á mótinu í ár.

Í F-riðli mæta Norðmenn heimamönnum í Slóvakíu í athyglisverðum leik. Í hinum leik riðilsins taka Rússar á móti Lítháen.

Leikir dagsins:

A-riðill:
17:00 Slóvenía - Norður Makedónía
19:30 Danmörk - Svartfjallaland

B-riðill:
19:30 Ungverjaland - Holland

C-riðill:
17:00 Serbía - Úkraína
19:30 Króatía - Frakkland

E-riðill:
17:00 Spánn - Tékkland
19:30 Svíþjóð - Bosnía og Herzegovina

F-riðill:
17:00 Rússland - Litháen
19:30 Noregur - Slóvakía