Al­eks­and­er Cefer­in, for­seti Knatt­spyrnu­sam­bands Evr­ópu, UEFA, segir það koma til greinaað lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu karla sem leikinn verður næsta sumar fari fram á einum stað en ekki í 12 borgum eins og lagt er upp með eins og sakir standa.

Þetta sagði Cefer­in í samtali við Reu­ters en þar segir hann að forsvarsmenn UEFA hafi áhyggjur af útbreiðslu kórónaveirufaraldursins. Verði staðan sú sama eða verri þegar nær dregur að EM sé mögulegt að keppnisstöðum verði fækkað. Jafnvel sé inni í myndinni að halda mótið bara í einu landi.

Ráðgert er eins og staðan er núna að mótið fari fram í Amsterdamn, Bilbao, Bakú, Búdapest, Búkarest, Dublin, Glasgow, Kaupmannahöfn, London, München, Pétursborg og Róm dagana 11. júní til 11. júlí.

Ceferin segir ekki hægt að segja til um á þessari stundu hvort áhorfendum verði heimilt að mæta á leiki keppninnar eða leikið verði fyrir luktum dyrum.

Ísland sækir Ungverjaland heim til Búdapestar 12. nóvember næstkomandi og leikur hreinan úrslitaleik um að komast í lokakeppnina. Liðið sem fer með sigur af hólmi í þeim leik fer í riðil með Frakklandi, Portúgal og Þýskalandi.