Ís­lenska kvenna­lands­liðið keppir á Evrópu­meistara­mótinu í hóp­fim­leikum í dag en mótið hefst klukkan 16:30. Hægt er að horfa á mótið í beinni neðst í fréttinni.

Lands­liðs­konan Kol­brún Þöll Þorra­dóttir, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að stelpurnar séu til­búnar í slaginn. Loka­æfing liðsins í gær gekk mjög vel og stefnir allt í mjög spennandi undankeppni á eftir en úrslitin fara svo fram á laugardaginn.

„Við gerðum allt sem við ætluðum okkur að gera,“ segir Kol­brún um loka­æfinguna í gær.

Kol­brún er ein reynslu­mesta fim­leika­konan í lands­liðinu og hefur tekið þátt í öllum helstum stór­mótum liðsins í nærri áratug. Hún var meðal annars ein af stjörnum liðsins þegar Evrópumeistaramótið var haldið á Ís­landi 2014.

Kolbrún Þöll stekkur á dýnu á lokaæfingu liðsins í gærkvöldi.
Ljósmynd/Stefán Pálsson

Á síðustu árum hefur orðið smá kyn­slóða­skipting í liðinu og segir Kol­brún að ungu stelpurnar hafa komið sterkar inn í lands­liðið.

Liðið hefur hins vegar þurft að æfa við krefjandi að­stæður í ár vegna heims­far­aldursins og má finna á stemmingunni í liðinu að það hlakkar í liðs­mönnum að fara út á keppnis­gólfið og sýna árangurinn.

„Við erum rétt stemmdar og við erum alla­vega búnar að vinna af okkur allt vit,“ segir Kol­brún létt. „Núna er bara komið að því sýna það sem við höfum verið að æfa.“

Evrópu­meistara­mótið í hóp­fim­leikum hefst 16:30 og verður hægt að fylgjast með því í beinni hér að neðan.