Blandað lið ung­linga og stúlkna­lands­liðið tóku sína síðustu æfingu í dag fyrir Evrópu­meistara­mótið í hóp­fim­leikum sem hefst á morgun. Kepp­endur fengu að æfa í keppnis­höllinni til að fá til­finningu fyrir keppnis­á­höldum morgun­dagsins.

Fjögur lands­lið keppa fyrir Ís­lands hönd á mótinu í ár; Blandað lið ung­linga, stúlkna­lið, kvenna­lið og karla­lið.

Ung­linga­lands­liðin áttu góðan dag í höllinni að undan­skildum meiðslum hjá Dag­nýju Lind Hregg­viðs­dóttur í stúlkna­lands­liðinu en hún mis­steig sig í síðustu æfingunni á gólfi. Dag­ný haltraði út af gólfinu og tók ekki meira þátt í æfingum liðsins en sjúkra­þjálfari stúlkna­liðsins mun taka á­kvörðun á morgun um hvort hún geti keppt.

Stúlkna­liðið flaug út með tvo vara­menn sem eru til­búnir að koma í hennar stað ef þess þarf.

Stelpurnar hófu daginn af krafti á trampólíninu.
Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson

Margra ára barátta við Svíana heldur áfram

Fjór­tán lönd eru skráð til leiks í ár en kvenna- og stúlkna­lands­liðin munu eiga harða keppni við sænsku liðin um Evrópu­meistara­titilinn í ár en Svíar hafa ráðið lofum og lögum í kvenna­flokki síðustu ár.

Ellefu ár er síðan Gerpla varð Evrópu­meistari fyrst ís­lenskra liði. Í dag keppa lið á EM undir nafni síns lands en árið 2010 keppti Gerpla fyrir hönd Ís­lands á EM sem Ís­lands­meistari.

Stúlknalandsliðið keyrði tvær gólfæfingar í dag. Í síðustu hreyfingunni í seinni æfingunni missteig Dagný sig.
Ljósmynd/Stefán Pálsson

Þá líkt og nú var sænska liðið helsti keppi­nautur Ís­lands. Fyrir þá sem þekkja ekki hóp­fim­leika má líkja þessum ára­tuga langa ríg við baráttur fimleikamanna frá Banda­ríkjunum og Sovét­ríkjunum á kalda stríðs árunum.

Stúlknalandsliðið hefur heygt álíka langa baráttu og kvennalandsliðið við Svíana .og verður enn eitt prófið á morgun.

Síðasti Evrópumeistaratitill Íslands í stúlknaflokki kom árið 2016 og þá voru Svíar í þriðja sæti.

Björk Guðmundsdóttir landsliðsþjálfari að fylgjast með stúlknaliðinu í dag.
Ljósmynd/Stefán Pálsson

Brjáluð stemming í blandaða unglingaliðinu

Blandað lið ung­linga byrjaði loka­æfinguna í dag á gólfæfingum og kepptust kepp­endur úr öðrum lands­liðum Ís­lands við að hvetja þau á­fram úr stúkunni en það er mikil stemming í ís­lenska hópnum.

Það var ekki að sjá annað en að liðið sé rétt stillt og til­búið fyrir morgun­daginn en á morgun fer fram undan­keppni hjá ung­linga­lands­liðunum og verður síðan keppt um Evrópu­meistara­titillinn á fimmtu­daginn.

Undan­keppnin hjá kvenna- og karla­liðunum fer síðan fram á fimmtu­daginn og úr­slit á laugar­daginn.

Strákarnir í blönduðu liði unglinga voru með kálfana rétt stillta á dýnunni í dag.
Ljósmynd/Stefán Pálsson

Lands­liðs­þjálfara­hjónin Björn Björns­son og Hrefna Þor­björg Hákonar­dóttir, sem eru yfir­þjálfarar allra lands­liðanna, fylgdust grannt með æfingunum í dag. Þau munu setjast niður með lands­liðs­þjálfurum í kvöld og gera síðustu breytingarnar fyrir undan­keppnina á morgun.

Það var létt yfir keppendum í blönduðu liði unglinga.
Ljósmynd/Stefán Pálsson

Norð­menn og Danir á­kváðu að taka ekki þátt í ár vegna Co­vid. Undir­strikar það þá þrek­raun sem ís­lensku lands­liðin hafa gengið í gegnum á síðustu mánuðum en liðin hafa æft við afar krefjandi að­stæður.

Síðasta skimun kepp­enda fer fram í keppnis­höllinni á morgun og mun þá koma í ljós hvort veiran ætlar sér að setja svip sinn á mótið í ár en því var frestað í fyrra vegna heims­far­aldursins.

Blandað lið unglinga á gólfæfingum í dag.
Ljósmynd/Stefán Pálsson