Íslenska karlalandsliðið í handbolta gerði jafntefli 24-24 þegar liðið sótti Norður-Makedóníu heim í fjórðu umferð í undankeppni EM 2020 í Skopje í kvöld.

Elvar Örn Jónsson jafnaði metin fyrir Ísland í lokasókn íslenska liðins á lokaandartökum leiksins og tryggði liðinu mikilvægt stig.

Liðin eru jöfn að stigum með fimm stig á toppi riðilsins þegar tvær umferðir eru eftir af riðlakeppninni.

Ómar Ingi Magnússon sem gerði afdrifarík mistök í leik liðanna í Laugardalshöllinni á miðvikudagskvöldið síðastliðið var markahæsti leikmaður Íslands í leiknum með átta mörk.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði 12 skot í marki íslenska liðsins og Ágúst Elí Björgvinsson þrjú þar af eitt vitakast.

Ísland á eftir að leika við Grikkland og Tyrkland í síðustu tveimur umferðum undankeppninnar sem fram fara um miðjan júní næstkomandi.