Íslenski landsliðsmaðurinn í körfubolta, Elvar Már Friðriksson hefur skrifað undir samning við meistaralið Rytas Vilnius í Litháen. Frá þessu greinir félagið í yfirlýsingu á heimasíðu sinni í dag.

Elvar er öllum hnútum kunnugur í Litháen en hann spilaði með Šiauliai tímabilið 2020-21 og var valinn verðmætasti leikmaður litháísku deildarinnar það tímabilið.

Þessi hæfileikaríki körfuboltamaður var síðast á mála hjá Tortona á Ítalíu en mun nú reyna fyrir sér á ný í Litháen. Í viðtali við Karfan.is segir Elvar að um spennandi verkefni sé að ræða:

„Rytas er stór klúbbur í evrópu og spilar í Champions League. Ég vissi strax eftir tímabilið hjá Ítölunum að ég myndi ekki vera áfram svo sumarið hefur farið í það að finna aðstæður sem henta vel.” sagði Elvar í samtali við Karfan.is