„Ég var einmitt að velta því fyrir mér um daginn að eftir ævintýrið í Frakklandi á síðasta keppnistímabili þá fór ég út að þessu sinni með litlar væntingar. Af þeim sökum er ég hæstánægður hérna þar sem allt sem mér var sagt þegar ég samdi við liðið hefur gengið upp," segir Elvar Már Friðriksson landsliðsmaður í körfubolta en hann gekk til liðs við Borås frá Njarðvík í sumar.

Elvar Már fór ásamt félaga sínum, Kristófer Acox, til Frakklands á síðustu leiktíð en hlutirnir gengu hvorki upp inni á vellinum né gekk þeim vel að aðlagast samfélaginu í þeim bæ sem þeir bjuggu þar. Elvar Már segir allt annað uppi á teningum hjá Borås og hann sér fyrir sér að vera þarna lengi verði þess óskað.

„Mér var strax tekið mjög vel hérna bæði af liðsfélögunum sem og fólkinu í kringum klúbbinn. Ég tók við sem leikstjórnandi númer eitt hérna og ég fæ mikið að vera með boltann í höndunum. Það eru ákveðnar vinnureglur í varnarleiknum sem verður að fylgja og ákveðinn strúktúr í sóknarleiknum. Ég fæ hins vegar ákveðið frjálsræði innan rammans og ég fíla það mjög vel. Ég fæ leiðbeiningar um þær leiðir sem er sniðugt að herja á andstæðinganna og svo er það mitt að velja rétta kostinn hverju sinni," segar Elvar Már enn fremur um fyrstu mánuðina hjá nýju félagi.

Elvar Már stýrir sóknraleik Borås með styrkri hendi.
Mynd/Daniel Grönbek

„Borås er lið sem vill berjast um þá titla sem í boði eru hverju sinni á hverju ári. Við fórum vel af stað í deildarkeppinni í vetur og unnum fyrstu sex leikina held ég. Þegar fyrsti tapleikurinn kom fann ég það svo vel að fólki er ekki sama um liðið hérna. Þá var allt að og liðið mikið gagnrýnt.

Við erum á fínu róli í deildinni og erum með lið sem getur orðið sænskur meistari. Þessi metnaður er akkúrat það sem mig langaði að finna þegar ég var að velja mér lið síðasta sumar," segir landsliðsmaðurinn en Borås hefur haft betur í sjö af fyrstu níu deildarleikjum sínum og beðið ósigur í tveimur.

Elvar Már hefur sjálfur leikið vel en hann er stigahæsti leikmaður liðsins í vetur með tæplega 17 stig í fyrstu níu deildarleikjum tímabilsins. Þá hefur hann sömuleiðis gefið flestar stoðsendingarnar í liðinu eða sjö talsins að meðaltali. Borås laut í lægra haldi í síðasta deildarleik sínum en liðið mætir Umeå í deildinni í kvöld.

„Það er voða erfitt fyrir mig að meta muninn á sænsku deildinni og þeirri íslensku. Ég er ekki mikið að pæla í því þegar ég er að spila. Ég reyni bara að spila minn leik og gera það vel. Aðalmunurinn er kannski að það er meira æft og af þeim sökum er hægt að fara nánar út í hlutina hérna. Svo eru þrír til fjórir bandarískir leikmenn í hverju liði auk evrópskra leikmanna og góðra sænskra leikmanna. Þannig að deildin er þess vegna aðeins sterkari," segir þessi hæfileikaríki leikmaður.

Elvar Már hefur náð að tengjast vel sænsku samfélagi og fjölskyldunni líður vel þar ytra.
Mynd/Daniel Grönbek

Elvar Már varð faðir í fyrsta skipti fyrir þremur mánuðum síðan en hann og kærasta hans, Ína María Einarsdóttir eignuðust dreng síðsumars. Elvar segir að fjölskyldunni líði vel í Svíþjóð og eins og staðan er núna sér hann fram á að vera þar næstu árin.

„Það er mjög þægilegt að ala upp barn hérna og fólkið hefur verið mjög hjálpsamt. Okkur líður mjög vel og samfélagið er rólegt og mjög barnvænt. Áður en ég samdi við félagið talaði ég við þá íslensku leikmenn sem hafa spilað hérna og Jakob Örn [Sigurðarson] sem spilaði hjá þessu félagi mælti mjög mikið með þessu félagi," segir hann.

„Það er svo sem ekkert launungarmál að mig langar til þess að reyna mig í sterkari deild einhvern tímann á ferlinum. Nú er ég hins vegar bara að njóta mín mjög vel og það er ekkert fararsnið á mér. Ég gerði eins árs samning við félagið í sumar og svo tökum við bara stöðuna næsta vor. Það getur margt breyst í körfuboltanum á stuttum tíma. Ef ég væri spurður að því núna hvort ég myndi vilja framlengja samninginn væri ég hins vegar afar jákvæður fyrir því," segir leikstjórnandinn sem er augljóslega sáttur við lífið og tilveruna.